05 January 2017

NÝTT ÁR – RÓLEGT LÍF

LIFUN I LÍFIÐ
Gleðilegt ár kæru lesendur. Við þökkum ykkur allt gamalt og gott og vonumst til að halda sambandinu góðu á þessu nýja ári. Nýtt ár er nánast sem autt blað. Við vitum að daglegt líf heldur áfram en jafnframt að því munu fylgja hæðir og lægðir, gleði og vonbrigði. Hlutir sem við þurfum að taka á. 
Home and Delicious mun loksins eignast nýtt aðsetur með örlítið hækkandi sól sem býður upp á meiri og skemmtilegri möguleika fyrir okkur og lesendur. Það er nóg framundan, stórt og smátt, en á þessum fyrstu dögum nýs árs er dýrmætt að taka það örlítið rólega ef möguleiki er á og velta lífinu fyrir sér. Þar sem ég sit í myrkrinu hérna á Þórsgötunni og skrifa þennan póst, finnst mér ég algjör forréttindapési að vinna heima og stjórna mínu lífi. Við hjónin höfum lagt, og leggjum, mikið á okkur til að það gangi upp. Að vinna heima krefst aga og hann getur farið út yfir öll velsæmismörk, þegar alltaf er kveikt á tölvunni og vikudagarnir renna saman. En með tímanum lærist slíkt og gott skipulag skilar sér í góðum dögum þar sem hversdagurinn er jafn mikilvægur öllum öðrum dögum. 
Þessa fyrstu daga ársins rennur eitthvað svo margt í gegnum hugann. Það er gott að geta spáð og spekúlerað, áttað sig á því sem er framundan. Sérstaklega því sem mann langar til að árið beri í skauti sér. Maður getur fengið einhverju ráðið um innan um allt sem kemur upp án þess að við getum gert neitt í því. –Við getum ráðið því að eiga líf sem er rólegt, afslappað og laust við tilbúna streitu, þar sem gengið er í verkin sem skipta raunverulega máli. Forgangsraðað og verið í kringum fólk sem gleður mann. Tileinkað okkur jákvætt hugarfar sem fleytir okkur áfram. Skapað okkur persónulegt umhverfi þar sem okkur líður best og við erum við sjálf. Það eru nýársheit Home and Delicious. Gleðilegt ár.


via 1 / 2


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...