12 May 2016

PORTÚGALSKUR SALTFISKRÉTTUR – FYRIR ALLA FJÖLSKYDLUNA

MATUR I UPPSKRIFT

Nú kemur inn fiskréttur frá okkur á Home and Delicious, gerist ekki nógu oft, kannski vegna þess að HBG finnst ekki alveg nógu gaman að elda fisk en gott að borða hann! GS er mun betri í fisknum og hefur gert ýmsa góða rétti sem mætti gefa hugmyndir að. Þessi uppskrift er ættuð frá Portúgal og hefur einhverra hluta vegna verið elduð handa okkur á páskum af móður og tengdamóður. Þar sem fjölskyldan getur sameinast í því að þykja þessi fiskréttur virkilega góður fannst mér um að gera að fá að birta uppskriftina og leyfa öðrum að prófa. Þið verðið ekki svikin af þessum rétti. Hann kemur virkilega skemmtilega á óvart! Lesið nánar til að sjá uppskriftina.

 Portúgalskur saltfiskréttur

1 kg útvatnaður saltfiskur, soðinn og þerraður
1 meðalstór laukur, smátt saxaður
4 hvítlauksrif, eftir smekk, fínt skorin eða marin
5-6 egg, hrærð
2-3 lárviðarlauf
2 dl gæða ólífuolía
sjávarasalt og svartur pipar
lófafylli fersk steinselja, smátt söxuð
svartar ólífur

600 g kartöflur afhýddar og skornar í mjóa strimla, djúpsteiktar í olíu, þerraðar og saltaðar með sjávarsalti

Hitið ólífuolíu í potti. Laukur og hvítlaukur er látinn malla í olíunni í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Lárviðarlaufin eru sett út í olíuna og leyft að malla aðeins með.
Rífið saltfiskinn niður og hrærið hann saman við olíuna og laukinn, látið malla saman í nokkrar mínútur og piprið fiskinn eftir smekk. Takið pottinn af hitanum og hrærið eggin saman við fiskinn og gætið að því að jafna vel úr eggjablöndunni. Setjið pottinn á lágan hita.
Hrærið kartöflustrimlana varlega saman við réttinn, þá steinseljuna. Smakkið til með salti ef þarf, fer eftir saltstyrk fisksins. Skreytið með steinselju og svörtum ólífum. Gott að bera þær einnig fram með réttinum.
Fersk salat, gott brauð og gæðavín er best með þessum virkilega góða mat. Rétturinn er ekki síðri kaldur en heitur og eins daginn eftir.

No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...