01 February 2016

MÚSLÍ MEÐ MEIRU

MATUR I UPPSKRIFT


Mynd Halla Bára


Eitt sinn vorum við svo heppin að fá tækifæri til að gista á einstöku hóteli þar sem var hreint einstakur morgunverður. Múslíið heillaði því það var svo greinilega heimalagað og með því var hægt að borða ferskustu berin. Berin stóðu að sjálfsögðu fyrir sínu í ferskleika sínum en múslíið…ótrúlegt og hreinlega gleymist ekki. Það fór af stað smá rannsóknavinna og prófanir til að reyna að ná þessu tvisti sem gerði útslagið. Og viti menn; það tókst alveg ágætlega. Meðfylgjandi er leiðbeinandi hugmynd um hvernig má bera sig að. Lesa nánar fyrir uppskriftina. 


Þegar þetta múslí er gert á okkar heimili er misjafnt hvort það er gert algjörlega frá grunni og keypt allt sem hugurinn girnist. Það viðurkennist þó að fljótlegasta aðferðin er sú að kaupa vandað múslí sem er alveg hreint, þ.e. ekki með neinu aukabragði. Það er nefnilega það sem á eftir kemur sem skiptir máli. Athugið að magnið er meira ráðgefandi en hitt.


400 g múslí, eigin uppskrift eða annað uppáhalds, Himnest hollusta hentar vel
150-200 g annað góðgæti, sbr míní-kornflögur, Himnest hollusta hentar vel
2 msk hrásykur
1 msk sjávarsalt
1 tsk kanill

1 dl létt olía, t.d. repjuolía
2 dl eplamús

2 dl hnetusmjör
2 dl vatn
2 msk sýróp, t.d. hlynsýróp


Hitið ofn í 200 gráður. Hrærið saman þurrefnin í stórri skál. Hrærið saman olíu og eplamús og hellið yfir þurrefnin. Blandið mjög vel. Dreifið úr blöndunni á bökunarplötu og stingið í heitan ofninn.
Fylgist vel með og athugið að brenna ekki múslíið. Þetta gerist nefnilega ansi hratt út við jaðrana. Takið reglulega úr ofninum, á um 10 mínútna fresti, og hrærið í blöndunni. Hafið í ofninum í um 30 mínútur. Látið þá kólna á plötunni en við það verður múslíið stökkara. Að sjálfsögðu má hafa múslíið styttri tíma í ofninum ef þið viljið hafa það mjög mjúkt.
Setjið hnetusmjör, vatn og sýróp í pott. Hitið að suðu, bræðið saman og blandið. Setjið ofnristað múslíið í stóra skál og hellið hnetusmjörsblöndunni yfir það. Hrærið allt mjög vel saman, gæti verið best að gera það með höndunum.
Dreifið aftur úr múslíinu á bökunarplötuna og látið það taka sig. Gott að láta það standa aðeins, annars klessist það meira saman.
Borðist með öllu sem hugurinn girnist; súrmjólk, AB-mjólk, grískri jógúrt, mjólk…
No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...