16 February 2016

HVER ERT ÞÚ?

LIFUN I HÖNNUNHvað er það sem virkilega nær til þín, hefur áhrif á þig, þegar þú hugsar um umhverfi þitt út frá hönnun? Allir tilbúnir hlutir í kringum okkur eru hannaðir á einhvern hátt. Hefur þú velt því fyrir þér? Getur þú persónugert þinn stíl? Veistu hvað þú vilt? Þetta eru erfiðar spurningar fyrir marga en aðra alls ekki. Að komast að því hvað nær til manns í hinum hannaða heimi, er að finna hvað hentar þér og þeim lífsstíl sem þú stendur fyrir. 

Líklegt er að margt höfði til þín, ólík stílbrigði, en það að hallast að ákveðnu yfirbragði og skapa sér  persónulegan stíl gerir einstakling forvitnilegan. Nýlega var ég á sýningu í Stokkhólmi þar sem þekkt og óþekkt fyrirtæki sýndu vörulínur sínar þegar kemur að innanhússhönnun og ýmsu tengdu heimilinu. Eftir að hafa sinnt því erindi sem ég átti á sýninguna og verið glöð og sátt með, fór ég um svæðið og skoðaði. Það sem snerti mig mest var hvað mér fannst í heildina einsleitt yfirbragð á því sem var verið að sýna. Auðvitað stóðu einhverjir upp úr í gæðum og náðu að fanga athyglina, en of mikið var svipað og nánast eins. Hálfgerð formúla í gangi í útliti og yfirbragði – skandinavískur nútíma einfaldleiki í hvítu og svörtu með snert af mildum litum. 

Ég er ekki að segja að margt af þessu hafi ekki verið huggulegt. Eftir á fór ég bara að velta því fyrir mér hve auðvelt er að bera á borð fyrir fólk hvað er NÝTT, INN, ÞETTA VERÐUR ÞÚ AÐ EIGA. Svo hleðst upp dót með tímanum og allt í einu finnur þú að margt af þessu dóti sem þú átt er alls ekki eitthvað sem þú hefur áhuga á eða langar sérstaklega til að eiga. Hentar ekki þínum stíl. Afleiðingin er einnig sú að við sjáum svipað dót, útlit og yfirbragð, aftur og aftur í blöðum og á netinu.  
Skapaðu þér þinn eigin heim. Með öllu því sem þér finnst fallegt og vilt hafa í kringum þig. Sumir vilja nostra við heimilið sitt og sumir eru með aðrar áherslur. Finndu það sem þú vilt, ekki fylgja hjörðinni án umhugsunar. Fáðu aðstoð ef þig langar til. Leitaðu eftir innblæstri á ólíklegustu stöðum. Vertu þú. 


1 comment:

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...