26 September 2015

TORTA CAPRESE – FYRIR HELGINA

MATUR
Á þeim unaðsstað Capri á Ítalíu, gistum við í „hinum” bænum á eyjunni sem heitir Anacapri. Algjörlega yndislegt, fallegt og skemmtilegt. Eins og á flestum öðrum stöðum fengum við þar mjög góðan mat en það var kaka í morgunmatnum á hótelinu sem stelpurnar okkar urðu sérlega hrifnar af – Torta Caprese. Súkkulaði- og möndlukaka, ættuð frá Salerno, sem er borg í krika Amalfiskagans. Kakan ber þó nafn eyjarinnar alveg eins og hin fræga samsetning af tómötum og mozzarella gerir. Kakan er mjúk og seiðandi og sérlega einföld. Hentugur eftirréttur eða eins og heillaði ungu dömurnar…sem morgunmatur! Ekki slæm hugmynd fyrir helgina. Lesa nánar fyrir uppskriftina. 

Súkkulaði- og möndlukaka

220 g dökkt súkkulaði
220 g smjör
4 egg, aðskiljið hvítur og rauður
1 ¼ bolli flórsykur
1 bolli malaðar möndlur eða möndlumjöl


Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið saman súkkulaði og smjör á vægum hita. Kælið. Hrærið saman eggjarauður og sykur þar til létt og ljóst. Stífþeytið eggjahvítur. Þegar súkkulaðiblandan hefur kólnað er henni hellt í mjórri bunu saman við eggjarauðublönduna og allt látið blandast vel.
Hrærið möndlumjölið saman við og blandið vel, á vægum hraða og ekki of mikið til að gera kökuna ekki seiga og þétta. Hrærið þá hvíturnar saman við hægt og rólega, vel og vandlega, þar til allt hefur farið vel saman og úr orðið áferðarfalleg deigblanda.
Hellið í smurt form og bakið í 25-30 mínútur eða þar til kakan er lungamjúk í miðjunni. Alls ekki baka kökuna of mikið, þá missir hún rakann og mýktina. Berið fram með rjóma, sýrðum rjóma, ís, grískri jógúrt eða öðru sniðugu.
Halla Bára / Home and Delicious
No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...