29 May 2015

HÆGELDAÐ SVÍN Í SÆTRI KARTÖFLU MEÐ PIKKLUÐU GRÆNMETI

MATUR

Þetta er ansi góður réttur og skemmtilega öðruvísi. Við vorum að setja hann inn á bloggið okkar hjá MS, www.gottimatinn. Skorum á ykkur að kíkja þangað til að fá hugmyndir að góðum mat almennt. Þetta er hægeldað svínakjöt í bakaðri, sætri kartöflu með súrsuðu grænmeti og sýrðum rjóma! Hugmyndin að þessum rétti er komin af veitingastað í London sem við höfum gaman af að borða á og heitir Muriel’s kitchen. Að sjálfsögðu langaði okkur í þennan rétt hérna heima eftir að við borðuðum hann þar og leituðum vel og lengi að uppskriftum til að nota og setja saman. Hér eru þær. Marga óar við tímanum sem fer í eldamennskuna, en athugið að þótt kjötið sé lengi í ofninum og grænmetið þurfi að standa, þá er allur undirbúningur mjög einfaldur og fljótlegur. Þess vegna er þetta flottur og góður réttur í matarboð þar sem löngunin er að bjóða upp á eitthvað öðruvísi og spennandi. Við skorum á ykkur að prófa. Gangi ykkur vel!Hægeldað svínakjöt (pulled pork)

1 kg svínahnakki eða svínalæri
1 tsk salt
1 tsk pipar
1 msk púðursykur
2 msk sojasósa
1 tsk five-spice powder (chinese five spiced powder frá Prima/Vilko)
2 dl vatn eða léttur sætur safi, sbr. granateplasafi

Hitið ofn 90 gráður ef þið ætlið að elda kjötið í um 8 tíma eða í 120 gráður fyrir 3 til 4 tíma.

Hitið ólífuolíu á pönnu og brúnið kjötið að utan, saltið og piprið. Takið kjötið af pönnunni og komið því fyrir í ofnpotti sem gott er að hægelda í. Hrærið saman púðursykur, sojasósu og five-spice powder og smyrjið utan á kjötið. Hellið vökvanum í pottinn. Setjið lokið á hann og stingið í ofninn. Fyrir þá sem nota kjöthitamæli þá er miðað við að hitinn í kjötinu sé kominn í 90 til 93 gráður til að það teljist tilbúið. Ef þið notist ekki við ofnpott þá þarf að pakka kjötinu vel inn í álpappír og loka vel fyrir.
Takið kjötið upp úr pottinum að eldun lokinni, látið það standa aðeins áður en þið byrjið að rífa það niður, gott að gera það með tveimur göfflum. Setjið í skál og hellið aðeins af soðinu yfir kjötið. Athugið að geyma aðeins eftir af soðinu.


Sýrt grænmeti

Vökvi:
1 b vatn
1 b hvítvínsedik
2 msk salt

Fennel
Gul og rauð paprika
Rauðlaukur

Skerið grænmetið í þunnar sneiðar. Hellið vökvanum í pott og setjið grænmetið út í vökvann. Komið upp suðu og sjóðið við vægan hita í 30 mínútur. Hellið þá af grænmetinu og látið renna vel af því. Athugið að þið getið notað ykkar uppáhalds grænmeti og allt annað en þetta.


Marinering:
6 msk ólífuolía
1 msk sykur
1 tsk cumin, malað
1 tsk kóríander, malað og þurrt
2 cm ferskt engifer, rifið
safi úr einu lime

Blandið saman öllu sem á að fara í marineringuna. Hrærið vel. Hellið yfir soðið grænmetið og blandið vel. Komið fyrir í krukku eða setjið límpappír yfir. Látið standa í 2-4 tíma áður en borðað með kjötinu.


Bakaðar sætar kartöflur

Hálf sæt kartafla er nóg á einn disk með kjöti og grænmeti. Stór sæt kartafla er skorin í tvennt. Pikkuð aðeins með beittum hníf. Smurð örlítið að utan með ólífuolíu og pakkað í álpappír. Bökuð við 180 til 200 gráður í um 45 mínútur. Fylgist þó vel með kartöflunum, því allt þarf þetta að fara eftir stærð kartöflunnar í álpappírnum.


Meðlæti

Sýrður rjómi
Steinselja


Samsetning

Takið kartöflu og kreistið hana aðeins saman til að opna hana. Setjið rifna svínakjötið ofan á kartöfluna. Pikklaða grænmetið fer yfir kjötið. Þá sletta af sýrðum rjóma. Skreytt með steinselju. Það getur verið gott að dreypa örlitlu soði yfir kjötið í kartöflunni áður en grænmetið er sett yfir það. Berið fram og njótið.1 comment:

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...