07 January 2014

2014 – vonir og væntingar?Þá hafa jólin kvatt okkur og ég sest aftur á reglulegum grunni niður við tölvuna. Jólin okkar voru ljúf og góð og ég vona að svo hafi verið hjá flestum. Á þessum tíma taka blessuð átamótaheitin við af jólunum. Margir eru góðir í að vinna að þeim og gera það mjög skipulega en aðrir síður. 
Ég er ekki sérstök í þessu en veit hins vegar hvað ég vil og hvað ekki, hverju mig langar að áorka, gera og geta. Sennilega bara það sama og síðustu ár. Ég ætla að halda áfram að vinna að því en bæta við einstaklega áhugaverðu og stóru verkefni hjá okkur hjónunum sem við segjum frá við gott tækifæri. 
En vonir og langanir eru af ýmsu tagi og um síðustu helgi var smá viðtal við mig í helgarblaði Morgunblaðsins. Þar var ég spurð að því hvað mig langi í þegar kemur að heimilinu. Ég þurfti satt að segja að velta þessu aðeins fyrir mér en svo kom þetta. Sumt stærra en annað minna, hugmyndir sem væri gaman að koma í verk og svo í fjarlægum draumi gæti eitthvað gerst! 

– Lesið nánar til að sjá og lesa hvað það er sem ég valdi eftir töluverða umhugsun –

Í stofuna
Það er einn stóll sem ég hefði ekki á móti því að eiga. Það er Butterfly chair, ættaður frá Argentínu 
og hannaður árið 1938. Upphaflega hugsaður sem mubla til að brjóta saman, vera auðveldur í meðförum og þægilegur í ferðalög. Útilegustólarnir sem margir þekkja vel er enn byggð á þessari hönnun. Ég vildi gjarnan eiga hann í þykku og ljósu bómullarefni með svörtum fótum. Svo sem alveg raunhæfur draumur en þó í ófyrirsjáanlegri framtíð! Þá held ég að einhver af pappalömpunum eftir Isamu Noguchi gæti farið vel við!


Á baðherbergið
Eftir smá umhugsun þá finnst mér flott loftljós eða ljósakróna skemmtilegur hlutur á baðherbergi ásamt því að hafa herbergið í einhverjum ofur fallegum lit. Ég á mér samt ekkert „drauma-drauma” 
í þeim efnum. Margt sem kæmi til greina.


Í svefnherbergið
Þar er ekki neinn vafi í mínum huga – mig langar í nýja dýnu í rúmið okkar. Sé það í 
hyllingum og svíf hálfa leið inn í draumalandið bara við tilhugsunina.

 

Í barnaherbergið
Mig langar svo til að stelpurnar okkar, Lea og Kaja, eigi herbergi sem er spennandi en jafnframt gott og afslappandi að vera í. Sé það alveg fyrir mér að í barnaherbergi sé gaman að hafa pláss fyrir flottar dýnur og stóra púða á gólfi til að kúldrast í og hafa það kósý.

Í garðinn
Draumagarðurinn er frekar lítill og afgirtur þar sem má hengja seríur yfir hann þveran og endilangan. Ímynda mér það sem skemmtilegan stað að vera á með jafn skemmtilegu fólki. Það eru sem sagt seríur sem gera garðinn frægan hjá mér.

Í eldhúsið
Hér segir Gunnar maðurinn minn að hann langi helst í pastavél. Mér finnst það frábær hugmynd. Við eldum mikið en ég verð að viðurkenna að við erum ekki mikið græjufólk þegar kemur að eldamennsku. Ég vildi hins vegar eignast stórt og gott gæðabretti sem mætti alltaf vera uppi á borði. Myndi ekki sakna sérstaklega glærhvítu plastbrettanna sem verpast til og eru þá eiginlega orðin hættuleg nálægt beittum hníf!

Í útópískri veröld
Ég tek undir orðin um frið og hamingju öllum til handa en ætli ég væri ekki til í að splæsa í gufubað við þessar aðstæður. Held að það sé alveg frábært til að hafa heima.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...