05 June 2013

te mánaðarins: maíTíminn líður aðeins of hratt nú um stundir. Ég veit að það er ekki lengur maí. Ég gleymdi bara alveg að segja ykkur frá tei maí-mánaðar sem kom frá Tefélaginu. Höldum áfram að spá í te: Það kom hunangste inn um lúguna. Hreint, svart te frá Hunan héraði í Kína. Það er af því mjúkur og mildur hunangskeimur sem vel má finna og fyllingin er þétt. Það er oft talað um Kína í sambandi við te en Kína er upprunaland teræktunar og tedrykkju. Þar eru framleidd flest afbrigði af tei og bragð og eiginleikar eru fjölbreyttari en víðast annars staðar. Kínverjar framleiða hvítt, grænt, oolong og svart te ásamt ýmsum öðrum afbrigðum sem við þekkjum lítið á Vesturlöndum. 

Talið er að í upphafi hafi te verið nýtt sem lækningajurt. Tímasetningar í þessu sambandi eru ónákvæmar en líklega hafa fyrstu kynni mannsins af tei verið fyrir tæplega 5 þúsund árum eða 2700 fyrir Kristburð. Á fyrstu árum eftir Krist eru heimildir um teneyslu betri, þá var te farið að breiðast út innan Kína, það var blandað krydd- og bragðefnum og að einhverju leyti drukkið með mat. Te var orðin mikilvæg verslunarvara innan Kína á þessum árum og var gjarnan pressað í kökur líkt og nú er gert við Pu-erh te, til að auðvelda flutning milli landssvæða. Um það leiti sem Rómarveldi leið undir lok (400 - 500) var te orðin alþjóðleg verslunarvara í Asíu. Lesið skemmtilegan fróðleik um te með því að ýta á lesa nánar hnappinn. Á árunum 618 - 907 var Tang keisaraættin við völd í Kína. Sá tími er oft kallaður hinar gullnu aldir tesins.Te breiddist þá út meðal almennings, grunnur var lagður að tesiðum og keisarar Tang ættarinnar sóttust mjög eftir bestu telaufunum. Á árunum 760 - 780 kom út fyrsta bókin sem er þekkt um te og tesiði - "The Classic of Tea" eftir Lu Yu. Þetta var skömmu fyrir landnám Íslands.
Á næstu áratugum og öldum urðu tesiðirnir fágaðri, áhöldin þróuðust og fínleg braðgefni eins og jasmínblóm og lótusblóm koma í staðinn fyrir þung og sterk krydd. Tesiðir urðu stærri hluti af menningu og trúarlífi Kínverja. Á þessum tíma var Búddismi að breiðast út frá Kína og í kjölfarið fluttist teneysla og menning til Japan og annarra nágrannalanda.
Á tímum Ming keisaraættarinnar (1368 - 1644) var farið að láta te gerjast. Þar með festist í sessi teframleiðsla eins og við þekkjum í dag þ.e. grænt te, svart gerjað te og oolong milligerjað te. Upphaflega var gerjunin fundin upp til að auka geymsluþol á teinu. Á þessum tíma í Evrópusögunni var Martin Lúter að stuðla að siðaskiptum og Spánverjar og Portúgalir að vinna ný lönd í Asíu og Ameríku.
Á 16. og 17. öld byrjaði te að nema land í Evrópu - fyrst landveginn til Rússlands og síðan sjóleiðina til Evrópu. Fyrsta tefarminum sem fluttur var til Evrópu var landað í Amsterdam 1606. Bretar urðu fljótlega að mestu tedrykkjuþjóð Evrópu. Þeir keyptu sitt te í miklu magni frá Kína. Í byrjun 19. aldar byrjuðu þeir að framleiða te sjálfir í nýlendum sínum á Indlandi, Caylon og víðar. Fljótlega urðu þessi lönd að helstu framleiðslulöndum fyrir svart te. Á sama tíma varð tedrykkja sífellt mikilvægari þáttur í breskri menningu - bæði hámenningu þar sem drukkið var „low tea" eða það sem við þekkjum núna sem „afternoon tea" og lámenningu þar sem drukkið var sterkt svart te úr stömpum með næringargóðum mat - eða það sem Bretarnir kölluðu „high tea".
Síðustu áratugi hefur sigurganga tesins haldið áfram. Enginn heitur drykkur er drukkinn meira eða víðar en te. Tetegundum hefur fjölgað og bragðaukarnir þróast. Te í tepoka var fyrst boðið til sölu árið 1904 eða sama árið og Hannes Hafstein varð ráðherra á Íslandi.
Það er auðvelt að afla upplýsinga og skrifa um tesögu heimsins en þegar kemur að tesögu Íslands er lítið um heimildir. Gaman væri að fá upplýsingar um tedrykkju á Íslandi frá einhverjum sem þekkir til. 

Heimildir Tefélagið; bókin Te, Fran Sencha till Lapsang eftir Petter Bjerke og Vernon Mauris, The, fra blad til kop eftir Christian Hincheldey og Wikipedia sem er full af fróðleik.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...