16 May 2013

matur: aspas, hráskinka og hollandaise-sósa

Gunnar Sverrisson / Home and Delicious


Ég get seint hætt að mæra blessaðan aspasinn. Ferskur er hann svo falleg fæða og um hollustuna þarf ekki að efast. Það er hægt að gera mjög margt úr honum og með honum og ef maður dettur í aðdáendahóp aspasins þá er gaman að elda hann, nota hann með kjöti og fiski, í pasta og rísottó. 
Hér er hann borinn fram á klassískan máta – vafinn hráskinku og hollandaise-sósa með. Þar sameinast ferskt bragð, salt og mjúkt og úr verður óbrigðul blanda sem ég skora á ykkur að njóta við tækifæri því aspasinn má orðið fá svo víða. 

aspas:
Hér passar að nota eitt búnt af stórum aspas. Skerið af endum aspasins. Ég kýs það að sjóða hann örlítið áður, í 5-7 mínútur, takið þá upp úr pottinum og látið renna á hann kalt vatn. Vefjið hráskinku utan um tvo stilka, ein sneið utan um hverja tvo. Leggið í fat eða á bökunarplötu. Dreypið nokkrum dropum af góðri ólífuolíu yfir. Stingið í 200 gráðu heitan ofn í um 5 mínútur eða þar til hráskinkan er orðin svolítið stökk að utan. 

hollandaise-sósa:
Þetta er fljótlega leiðin að gera sósu sem þessa og sama uppskrift á við bernaise-sósu, í hrærivél eða blandara. En trúið mér, hún er mjög góð og verður svo létt og flott. 

2 eggjarauður
1 msk hvítvínsedik (fyrir bernaise-sósu er notaður bernaise-essence í staðinn)
200 g brætt smjör
1 tsk vatn eða 1 tsk kjötkraftur (kraftur út í vatnið)
1 tsk tarragon

Setjið rauður ásamt ediki í hrærivél og þeytið þar til rauðurnar eru léttar í sér. Bræðið smjörið í potti, Setjið kraftinn saman við ásamt tarragoninu. Hafið hrærivélina á lágum snúningi og hellið smjörinu í mjórri bunu saman við rauðurnar. Að því loknu aukið þið hraðann og hrærið þar til úr verður létt og ljós sósa sem er ómótstæðileg á ofnbakaðan aspasinn. Berið fram. 
No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...