22 May 2013

hönnun: mann fram af manni, saga skáps


Mig langar að segja ykkur frá þessu ótrúlega sniðuga og í raun fallega lokaverkefni Steinrúnar Óttu Stefánsdóttur í vöruhönnun frá LHÍ. Um er að ræða ákveðið tímamótaverk fyrir vöruhönnuði, því verkefnið er byggt upp á rannsókn eða aðferðarfræði í stað t.d. söluvöru. Steinrún segir í tölvupósti til okkar á Home and Delicious: „Mann fram af manni er ákveðið statement, í menningarlegu samhengi og náttúrinni í hag, og ég tel það eiga erindi inn á öll heimili í dag. Það er algengt að skrifa ævisögur manna en að skrifa ævisögu hluta er fátítt." Þar sem verkið útskýrir sig ekki sjálft, fylgir hér sagan á bak við það. Ýtið á lesa nánar hnappinn til að lesa söguna. 


Guðrún Jónsóttir langalangamma mín bjó á Syðrívík á Vopnafirði fyrir aldarmótin 1900. Upp úr 1880 létu þau hjónin smíða fyrir sig betriskáp sem geymdur var uppi á loftum undir spariföt þeirra hjóna. Alla tíð síðan hefur skápurinn gengið mann fram af manni í minni ætt, fluttur á milli staða á hestum og bílum um landið þvert og endilangt og alltaf staðið fyrir sínu.
Í gegnum rannsókn mína á sögu skápsins fór margt í gegnum hugann. Í ferlinu voru gerðar margs konar mælingar á stærð, málningarlögum, úttektir á vinnubrögðum og efni, samsetningum, smáatriðum svo sem hjörum, skráargati, lykli og viðgerðum. Rannsóknir á ættartrjám, eigendum og hvað þeir geymdu í skápnum hver fyrir sig. Ferðum skápsins um landið, ferðamáta, viðkomustöðum frá 1880-2013, gömlum ljósmyndum, miðilsfundi og svo mætti lengi telja. 
Um tíma leitaði hugurinn inn á við og stóra spurningi var hvað gerir skáp að skáp? Er það hurðin og hjarirnar? Hvaða tilgang hafa skápar í híbýli manna? Eru skápar til að fela eitthvað fyrir örðum, fela sjálf okkur eða eignirnar?
Miklar vangaveltur voru einnig í gangi í tengslum við mannslíkamann þar sem líkaminn er eins konar skápur sem hefur að geyma okkar dýrmætustu eigur, líffærin. Gamli skápurinn er í raun í líkamsstærð þar sem hann var í upphafi smíðaður sem fataskápur og peysuföt langalangömmu minnar hengd upp í skápinn. Lengi vel leitaðist ég við að finna „hjartað í skápnum“.
Stærð skápsins er óvenjuleg miðað við hirslur nú til dags. Einnig kom upp sú staðreynd að flest allt sem fólk átti í gamla daga komst í einn skáp og spurt var hvort nútíminn stæði frammi fyrir því sama? Þétting byggðar, minni íbúðir, rafrænar hýsingar fyrir tónlist, myndir og gögn verða til þess að margir hafa minnkað aðrar veraldlegar eigur til muna. Einnig auðveldar það ferðalög og flutninga, því það fylgir því ákveðið frelsi að eiga lítið. Hvernig gat ég búið til nýjan hlut út frá þessum heimildum?
Að lokum stóð ég uppi með ítarlega rannsókn á „lífi“ skáps í höndunum og tók þá ákvörðun að hanna ekki nýjan hlut, heldur láta rannsóknina tala sínu máli ásamt skápnum sjálfum. Mín leið er eins konar skráningarleið þar sem sagan er skráð í hlutinn sjálfan. Í rannsókninni hef ég einnig náð að mynda tengingu milli eigendanna, sem þó voru uppi á ólíkum tímum. Með því að draga saman sögu skápsins í eina bók,  skápsins sem hefur erfst mann fram af manni, hef ég samt aðeins skrásett brot af „lífi“ hans, því margt er enn óskrifað í komandi framtíð með nýjum eigendum.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...