29 April 2013

te mánaðarins – apríl


Þá held ég áfram að tala um te! Teið sem ég fékk inn um lúguna þennan aprílmánuð er Puerto Rico. Það er mjög gott get ég sagt ykkur. Grænt kínverkst Chun Mee te sem er blandað kókos og ananas sem gerir bragðið líflegt og ferskt með örlítilli sætu eins og þeir segja. Það hentar líka vel sem íste en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki reynt það því það er of gott heitt. Ég hef aldrei gert mér íste en kannski er bara komið að því. 
Hér eru nokkrar ráðleggingar varðandi íste frá Tefélaginu: Íste verður víst aldrei betra en teið sem við notum í það - við skulum því vanda valið á tei fyrir íste ekki síður en þegar við drekkum heitt te. Best er að hita teið eins og við gerum venjulega og hella því svo í glas eða könnu sem hefur verið fyllt af klökum. Glasið eða kannan þurfa að þola hitabreytinguna. Það er mikið vatn í klakanum þannig að teið sem myndar grunninn þarf að vera bragðmikið. Það er sjálfsagt að bæta við sætuefnum fyrir þá sem það vilja - mjög flott/gott að setja ávexti, kryddjurtir eins og myntu eða eitthvað annað góðgæti í teið. Það er smekksatriði hvað er gott - það á líka við um íste. En sagan segir að íste hafi verið „fundið upp" í Bandaríkjunum árið 1904 og þið getið lesið meira um íste með því að ýta á lesa nánar hnappinn. 


Sagan segir að íste hafi verið "fundið upp" í Bandaríkjunum árið 1904. Enskur tekaupmaður Richard Blechynden var að kynna te frá Indlandi fyrir Bandaríkjamönnum á heimssýningunni í Saint Louis. Það var molluhiti og enginn hafði áhuga á teinu hjá Richard. Honum datt það snjallræði í huga að kæla það á ís og gefa gestum og gangandi að smakka. Í hitanum í Saint Louis höfðu allir áhuga á að kæla sig með ísköldu te - þannig varð íste til. Þetta er fín saga og að nokkru leyti sönn. Íste á sér þó mun lengri sögu í Suðurríkjum Bandaríkjanna en Richard þessi Blechynden mun hafa átt mikinn þátt í að íste varð vinsæll drykkur. Í dag er 85% af tedrykkju Bandaríkjamanna íste!

Á 20. öld varð íste gríðarlega vinsælt víða um heim í dósum eða flöskum. Hægt er að kaupa íste unnið úr grænu eða svörtu te, með eða án kolsýru og með mismikið sykurinnihald. Stærstu framleiðendur af íste um allan heim eru líklega Lipton og Nestea. Miðað við útbreiðslu á íste víða um heim er með ólíkindum að við skulum ekki hafa komist upp á lag með að drekka þennan drykk hér á Íslandi þ.e. íste í flöskum eða dósum.

Algengast er að nota svart te sem undirstöðu í íste. Það er þó allur gangur á því og í þeim löndum þar sem grænt te er undirstaðan í tedrykkju, svo sem Kína og sérstaklega Japan, er grænt te einnig notað í íste. Það fer vaxandi að nota hvers konar bragðaukin te eða ávaxtaseyði í íste.

Það er algengast að íste sé drukkið sykrað - sérstaklega dósateið sem er nánast án undantekninga með sykri eða öðrum sætuefnum. Heimalagað íste er oft sykrað - þá er mismunandi hvort sykurinn er hrærður út í heitt teið áður en það er kælt eða hann settur eftir á í kalt te. Víða um heim þýðir hugtakið íste sykrað heitt te. Einnig er algengt að gefa íste sætukeim með hunangi eða jafnvel sírópi. Sumir nota íste til hálfs á móti ávaxtasafa t.d. lime-safa eða trönberjasafa. Hvers konar ávextir, sítrónusneið, lime, jarðaber, ananas eða annað góðgæti getur gefið sætu- eða ávaxtabragð sem gerir drykkinn meira spennandi. Þar að auki er fallegt að bæta ávöxtum í glasið.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...