04 April 2013

matur: steiktur þorskur með ferskum aspas


Þegar Gunnar eldar fisk verða réttirnir hans eins og á veitingahúsi. Þegar ég geri það eru þeir mjög hversdagslegir. Það hefur eldri dóttir okkar í það minnsta tilkynnt okkur. Rétturinn hér á myndinni var eldaður í miðvikudagshádegi fyrir skömmu og er ekki að grínast með það. Hann keypti þorsk, fékk 50 prósenta afslátt af ferskum aspas því hann var orðinn hálf slappur í borðinu, notaði bakaðar kartöflur sem við áttum í ísskápnum sem og hægeldaða tómata sem við höfðum gert nokkrum dögum áður. Úr þessu varð lygilega góður réttur sem er sannarlega þess virði að segja ykkur frá. 

Hér gildir engin sérstök uppskrift. Eins og ég sagði þá eru kartöflurnar afgangur af bökuðum kartöflum sem hann skar niður í teninga, setti í eldfast mót og setti tómatana yfir (sjá uppskrift hér af hægelduðum tómötum). Þorskurinn var steiktur á heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið, kryddaður, þá lagður ofan á kartöflu- og tómatabeðið. Stungið í 180 gráðu heitan ofn í 20 mínútur. Aspasinn er flysjaður og skorið neðan af honum, soðinn þar til hæfilega mjúkur undir tönn. Þá þerraður og lagður ofan á þorskinn áður en hann er borinn fram. Tilbúið og sérlega einfalt. 


1 comment:

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...