11 April 2013

matur: gott að dýfa í


 Halla Bára Gestsdóttir og Gunnar Sverrisson / Home and Delicious


Brauð eins og bagetta, tortillur og flatkökur af ýmsu tagi verður enn betra með góðu og heimalöguðu meðlæti. Hér eru hugmyndir sem gott er að dýfa brauðmeti í og smyrja á, hvort sem ljúfmetið er borið fram fyrir máltíð með góðum drykk eða með sem hluti af matnum. 


 

Dukkah
Frábært til að nota með góðri ólífuolíu – dýfa í olíu og þá í dukkah.

1½ dl heslihnetur eða möndlur
1/3 dl kóríanderfræ
3 msk sesamfræ
 2 msk cuminfræ
1 msk svört piparkorn
1 tsk fennelfræ eða þurrkað rósmarín
1 tsk þurrkuð mynta
1 tsk sjávarsalt
1 tsk hrásykur

Ristið hnetur, fræ, pipar og þurrkrydd á pönnu til að draga fram bragðið. Gætið að því að hafa hráefnin ekki of lengi á pönnunni svo þau brenni ekki. Látið kólna. Setjið í matvinnsluvél ásamt salti og hrásykri og maukið fínt. Gætið þess að mauka ekki of mikið því þá verður blandan blaut. Geymist allt að mánuð í kæli.


 

Heit ostaídýfa
Góðgæti sem þetta er alltaf vel þegið! Ljúffengt að dýfa í og tilvalið að bera fram 
á sneiðum af bagettu eða tortillu.

2 msk ólífuolía
4 sneiðar beikon, skorið í bita
2 dl blaðlaukur eða vorlaukur, smátt saxaður
2 dl rauð paprika, smátt skorin
200 g spínat, saxað
3 hvítlauksrif, marin
2 dl hreinn rjómaostur
2 dl rifinn ostur eða parmesanostur
1½ dl sýrður rjómi
¼ tsk salt
¼ tsk chilípipar

Hitið ofn í 200 gráður. Steikið beikonbitana vel í olíunni, þerrið á eldhúspappír að því loknu. Notið olíuna af beikoninu á pönnunni og mýkið lauk og papriku, í um 5 mínútur. Bætið þá spínati og hvítlauk á pönnuna og mýkið í aðrar 2 mínútur. Setjið rjómaost og rifinn ost á pönnuna og látið bráðna saman við grænmetisblönduna. Bætið beikoninu saman við. Smakkið til með salti og chilípipar. Setjið í eldfast mót og í ofn í 10 mínútur. Berið fram heitt.


  

Mangó-chutney
Mangó- chutney hefur mjög mikla möguleika í matargerð. Það er hægt að bera fram eitt og sér með tortillum, setja ofan á ost sem stungið er í heitan ofn, hræra saman við rjómaost og að sjálfsögðu nota með mat á borð við kjúkling og svínakjöt (uppáhaldið mitt er að smyrja því á hamborgara!).

2 mangó, afhýdd og skorin niður í bita
2 dl vatn
3 hvítlauksrif
2 msk hvítvínsedik
1 dl rúsínur
1 tsk salt
2 cm fersk engiferrót
3 msk hrásykur
1 tsk chiliduft
1 tsk garam masala
1 tsk karrí

Setjið allt hráefnið í pott, hrærið vel saman. Látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í um klukkustund eða þar til blandan tekur að þykkna. Hrærið reglulega í maukinu á meðan það mallar. Stappið blönduna aðeins til að leysa upp mangóið ef þið kjósið. Getið líka notað töfrasprota. Berið fram.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...