22 April 2013

hönnun: KER, hjörtur matthías skúlason


Í síðasta tölublaði af Home and Delicious var viðtal við Hjört Matthías Skúlason, hönnunarnema í Listaháskólanum, þar sem hann sagði frá lokaritgerð sinni sem fjallaði um öskubakkann sem tákn í hönnunarsögunni. Við hittum Hjört á HönnunarMars þar sem ég tók af honum það loforð að láta mig vita af útskriftarverkefninu sínu því mér þótti hugmyndirnar sem hann hafði um það mjög spennandi. Á laugardaginn fékk ég póst frá Hirti, myndir og texta um verkið sem er mjög gaman að birta hér á Home and Delicious. Hjörtur kallar verkið sitt KER sem er vísun í leirker eða ílát. KER vann hann í nánu samstarfi við leirkerasmiðinn Guðbjörgu Káradóttur og leiðbeinendur hans voru Tinna Gunnarsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuðir. Sýning útskriftarnema er í Hafnarhúsinu, Listasafni Reykjavíkur. Svona lýsir Hjörtur verkinu sínu: 


Menning
Vegna stöðugrar fjölgunar mannkyns þéttast byggðir og híbýli minnka, sem kallar á færri en fjölnýtanlegri hluti. Sífellt fleiri sækjast nú eftir því að neyta lífrænnar fæðu umfram unnar matvörur. Verkun og eldun matarins spilar þar stóran sess og krafa um að matur haldi sínu upprunalega næringargildi.


KER
Fornminjar um allan heim sýna að útbreiðslu leirpottsins voru engin mörk sett. Að verka mat og elda í leirílátum byggir á ævafornri hefð sem maðurinn hefur þróað með sér í gegnum tíðina. KER er samsett úr þremur hlutum sem henta til verkunar, eldunar og framreiðslu matar. Þá má nota saman eða staka. Matarhefðum og verkun norðlægra slóða er gert hátt undir höfði með þessum ílátum, sem gefa nútímamanninum kost á að þróa áfram matarmenningu byggða á gömlum grunni. Söltun, reyking og súrsun er þar í brennidepli.


Geymsla og verkun
Gamlar aðferðir við vinnslu og geymslu á mat byggðu á náttúrulegum ferlum og voru því vistvænar. Fiskur var t.d. slægður og hengdur upp á köldum og helst vindasömum stað. Hvort tveggja fiskur og kjöt var lagt í saltpækil, en segja má að sérstaða íslenskrar matarmenningar hafi helst legið í súrsun. Notast var við skyrmysu til súrsunar og afurðir sauðfjárins, innmatur jafnt sem kjöt, geymdar í skyrmysunni. Reyking var einnig aðferð sem var mjög útbreidd um norðlægar slóðir. Flestar þjóðir reyktu með koluðum harðvið en hér á Íslandi var hann í takmörkuðu magni og birki er okkar eini harðviður. Þar sem ekki var um auðugan skóg að grisja brugðu Íslendingar á það ráð að brenna sauðatað í staðinn, sem gaf mildan reyk og þar af leiðandi gott reykjarbragð.

 Myndirnar tók Marinó Thorlacius

No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...