05 April 2013

handverk og hönnun: auður skúladóttir


Eitt fegursta heimili sem ég hef á ævi minni heimsótt er að finna á efri hæðinni í gömlu iðnaðarhúsnæði á Akureyri. Auður Skúladóttir og Hjörtur Fjeldsted hafa þar búið sér heimili sem er óendanlega fallegt en afar ólíkt hefðbundum íslenskum heimilum, það er eiginlega meira svona dáldið je ne sais quoi, eigum við að segja franskt frekar en íslenskt? Myndir af þessu fallega heimili hafa m.a. birst í fyrsta tölublaði Home and Delicious, ratað í innlend og erlend húsbúnaðartímarit og ekki að ástæðulausu, þetta er himneskt heimili sem er algjörlega ógleymanlegt þeim sem þangað koma.

–Gerður Harðardóttir / koolandkreativÁ neðri hæðinni hjá Auði er stór og björt vinnustofa, sneisafull af húsgögnum, skálum, lampafótum, speglarömmum, textíl og fleira fíneríi sem bíður þess að Auður töfri fram nýtt og fegurra útlit en Auður sem lærði skreytimálun í Danmörku á sínum tíma, vinnur þar við að fegra hluti með skreytilist og mismunandi málningartækni sem flestar byggjast á aldagamalli arfleifð. Trompe l´oeil, blaðgylling, fresku- og marmaramálun leikur í höndunum á Auði sem einnig notar découpe, skreytilist sem vinsæl var á tímum Marie Antoinette, til að skreyta skálar og fleiri smáhluti; hún býr til skartgripi, málar á textíl og fer létt með að búa til málningu þar sem egg eða mjólk eru í aðalhlutverki, eins ótrúlega og það kann að hljóma.
Einna þekktust er Auður fyrir umhverfisvæna kalkmálningu sem þau Hjörtur hafa framleitt og selt undanfarin ár, ekki bara hér heima heldur einnig í sérvöldum verslunum í Skandivaníu, undir nafninu Kalklitir. Kalkmálning hefur í aldaraðir verið notuð til að mála hús að utan og vistarverur að innan, ekki síst í löndum þar sem hitastigið utandyra er hærra en hér heima og raki meiri, en einn af aðalstyrkleikum kalkmálningar er að í henni á skaðræðiskvikindið mygla sér ekki viðreisnar von. Allir litirnir eru sérblandaðir af Auði eftir uppskrift sem er fjölskylduleyndamál sem aldrei verður gefið upp og stöðugt bætast nýir litir við þá litaflóru sem fyrir er. Nýlega hófu Auður og Hjörtur að selja kalklitina í duftformi í sérstökum pappírspokum en lítið mál er að blanda litina sjálfur saman við vatn. Á nýrri heimasíðu, Kalklitir.com, eru á ensku og íslensku, nákvæmar leiðbeiningar um bæði blöndun litanna fyrir notkun og eins myndband sem sýnir hvernig best er að bera sig að þegar málað er með kalkmálningu. 


Auður og Hjörtur hafa unnið að því undanfarin ár að hasla sér völl erlendis og frekari landvinningar eru á teikniborðinu. Þessa dagana leita þau að samstarfsaðilum erlendis, sérstaklega í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Í ágúst næstkomandi verða Kalklitir með bás á vörusýningunni Formland í Danmörku þar sem litirnir verða kynntir og um sama leiti standa vonir til að ný lína af mjólkurmálningu frá Auði verði tilbúin í sölu en hún er tilvalin til að fríska við húsgögn og timbur. 
Auður bloggar á ensku á Whendecorating.blogspot.com þar sem fallegur stíll hennar fær að blómstra og á væntanlegri vefsíðu, Whendecorating.com ætlar Auður í framtíðinni að vera með vefverslun þar sem fáanlegir verða listmunir, m.a. skálar, textíll og fleira sem fæðist á vinnustofunni við Glerárgötuna, auk þess sem hugmyndin er að vera með á vefsíðunni ýmis spennandi námskeið.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...