14 April 2013

bakstur: múffur fyrir helgarmorgna


Gunnar Sverrisson / Home and Delicious

Góðar að skella í með góðri samvisku. Þegar dóttir mín dró mig framúr of snemma í morgun langaði mig í eitthvað gott í morgunmatinn og setti í þessar á myndinni. Ég viðurkenni að í meirihluta tilfella sem ég baka er það vegna þess að MIG langar svo hrikalega í eitthvað gott. Þar sem ég á svo mikið af frostnum bláberjum í frystinum sem ég verð að nota, datt mér í hug að nota þau í múffurnar og af því að matreiðslubók Gwyneth Paltrow var í augsýn notaði ég í grunninn uppskrift frá henni. Þó með miklum tilfæringum því ég átti ekki allt sem til þurfti. En þær tókust vel og hægt að mæla með þeim sem sérlega fljótlegum morgunmat.

½ b létt grænmetisolía, repjuolía til dæmis
½ b mjólk, soya-, möndlu- eða annað (ég var með möndlumjólk með kókos)
2 egg
½ b púðursykur
1 ½ b heilhveiti
½ b malað bygg
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
2 b fersk og frosin bláber

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman vökva og eggi. Blandið þurrefnum saman. Hrærið þurrefnin út í vökva- og eggjablönduna svo úr verði kekkjalaust og gott deig. Setjið þá bláberin varlega saman við og hrærið, ekki of mikið því þá fara berin að gefa lit út í deigið. Setjið í múffuform, ég nota silikonform og set þau í bakka. Úr verða 11-12 múffur. Stingið í ofn og bakið í 20-25 mínútur.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...