21 March 2013

te mánaðarins: mars


Teið sem ég (við miklu frekar, því Gunnar er dottinn í þetta líka) hef verið að drekka núna í mars er Earl Grey. Ég held ég hafi sjaldan fengið það betra. Earl Grey er ein af vinsælustu teblöndum á Vesturlöndum. Stofninn í þessu afbrigði sem kom frá Tefélaginu að þessu sinni er Keemun te frá Anhui héraði í Kína. Teið er blandað Bergamont olíu sem gefur því þetta klassíska Earl Grey bragð. Tannín í því er frekar lítið en koffín í meðallagi. 

En hvernig á maður að bera sig að þegar maður fær nýtt te upp í hendurnar? 
Hvernig fer tesmökkun fram? 

Fyrir teáhugamenn þá held ég að lesturinn hér á eftir geti reynst sérlega fróðlegur og skemmtilegur. 
Þar eru upplýsingar frá Tefélaginu um smökkun, útlit, bragð og fleira. 

–Ýtið á lesa nánar hnappinn til að drekka í ykkur allt um te–

Mynd frá Brittu Nickel í gegnum Un p'tit verre


Markmiðið með þessari umfjöllun er að benda á nokkur mikilvæg atriði þegar við smökkum te frá Tefélaginu eða annað te. Þegar sendingin kemur frá Tefélaginu er fyrsta verkefni að skoða laufin. Það er merki um gott te ef laufin eru nokkuð stór og óbrotin. Te er flokkað meðal annars eftir stærð og lakasti flokkurinn er smágerðasta teið eða teryk. Það er líka merki um gæði ef teið er einsleitt þ.e. hvað varðar stærð og lit. Þetta á að sjálfsögðu ekki við ef við erum að skoða teblöndur. Að lokum má nefna að teið á að vera stökkt, annað getur verið merki um raka eða vond geymsluskilyrði. Þegar búið er að skoða teið vel og vandlega viljum við að því sé hellt úr plastpokanum í bréfpokann. Gott er að koma sér upp klemmu eða öðrum búnaði til að loka pokunum vel. 

Áður en við smökkum teið þurfum við að hella uppá góðan bolla. Það getur tekið nokkrar tilraunir að fínstilla magnið og stöðutímann en ef farið er eftir leiðbeiningunum á spjöldunum frá Tefélaginu ætti það ekki að vera vandamál. Styrkleikinn og stöðutíminn er að hluta smekksatriði - það er því verkefni hvers teunnanda að finna sinn tíma og sinn styrk fyrir hvert te. Þegar við vöndum okkur við tesmökkun er góð hugmynd að nota alltaf sama borðbúnað. Einhvern veginn smakkast te ekki nákvæmlega eins í næfurþunnu stofustelli eða þykkum vinnufanti. Þeir sem eiga glerkatla eða pressukönnu búa vel vegna þess að þeir geta horft á laufin opnast og teið verða að veruleika. Ekki nota pressukönnu sem er notuð til að laga kaffi - kaffibragðið/lyktin er sterk og líkleg til að skaða fínlegt tebragðið.

Þegar teið er tilbúið þurfum við að skoða blaut laufin áður en við snúum okkur að sjálfu teinu. Ef við erum að drekka gott te eru allar líkur á að við sjáum fallega græn laufblöð sem líta út eins og hægt sé að hengja þau á teplöntuna aftur.

Prófum nú að þefa af teinu. Það eru tvær aðferðir við að þefa - önnur felst í að draga djúpt að sér andann, hin í því að sniffa eins og hundar af teinu. Bragð og lykt eru nátengd, því er gott að geyma lyktina í huga sér fyrir fyrsta sopann.

Nú er komið að því að smakka - það er best að gera með því að sötra teið, þ.e. setja stút á munninn og draga inn súrefni og te á sama tíma. Því hærra „sötr" sem heyrist því betra - ástæðan er sú að ef við sötrum blandast teið saman við súrefni og bragðefni leysast betur upp í munninum. Þegar við erum komin með te í munninn lokum við og öndum út um nefið. Allan tímann hugsum við um að greina bragðið af teinu. Síðan kyngjum við og finnum eftirbragðið í dágóða stund.

Það er enginn vandi að smakka te - vandinn felst í að koma orðum að upplifun okkar, hvernig var bragðið? Á vefsíðunni sem nefnd er hér að neðan er bragðið flokkað í nokkra flokka og undirflokka til að auðvelda okkur að lýsa bragðinu. Aðalflokkarnir eru náttúrubragð (dæmi: gras, jörð, viður), ávextir (dæmi: ber, sítrusávextir, ananas), blóm (dæmi: jasmín, rós), hnetur (dæmi: ólíkar tegundir af hnetum, ristaðar hnetur), sætukeimur (dæmi: hunang, karmella), krydd (dæmi: kanell, pipar) og reyklykt (dæmi: reykur, tjara). Þegar bragðinu er lýst er ágætt að hafa í huga fyrstu áhrif, meginbragðið og síðan eftirbragðið. 

Umfjöllunin er byggð á eigin reynslu Tefélagsfólks og texta á vefslóðinni www.twinings.co.uk/about-our-tea/how-to-taste-tea

No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...