09 March 2013

bakstur: nýtt upp á gamla mátannPönnukökur, skonsur, vöfflur og fleira í þeim dúr stendur svo sannarlega fyrir sínu þegar kemur að bakstri og því að kalla fram góðgæti á skammri stundu. Uppskriftirnar hér fara örlítið aðrar leiðir þegar kemur að þessari klassík – pínu meiri hollusta þegar deigið er útbúið og áhugaverðar útfærslur á meðlæti.

Amerískar pönnukökur með bláberjasýrópi
Kókosskonsur
Grófar vöfflur

–Sjá uppskriftirnar með því að ýta á lesa nánar hnappinn–

Amerískar pönnukökur með bláberjasýrópi

Bláberjasýróp:
170 g bláber*
4 msk púðursykur eða hrásykur
4 msk maple-sýróp
2 msk vatn

2 ½ dl hveiti eða heilhveiti
2 ½ dl spelt
1 tsk lyftiduft
½ tsk natron
5 msk púðursykur eða hrásykur
½ tsk salt
4 msk birkifræ
5 ½ dl súrmjólk eða ab-mjólk
2 egg, hrærð
2 msk brætt smjör

Byrjið á sýrópinu; setjið sykur, sýróp og vatn í pott ásamt helmingi af berjum. Látið sjóða þar til berin fara að mýkjast vel og springa. Takið þá af hitanum og þrýstið sýrópinu í gegnum sigti þannig að hýðið af berjunum sitji eftir. Setjið heilu berin út í sýrópið.
Hrærið þurrefnin saman í deigið. Setjið súrmjólk, egg og brætt smjör saman við og hrærið vel svo úr verði nánast kekkjalaust deig.
Hitið pönnukökupönnu en helst pönnu sem ekki festist við, á rúmlega miðlungshita. Bræðið örlitla smjörklípu á pönnunni. Setjið um 4 msk af deigi á pönnuna fyrir eina pönnuköku. Snúið við þegar loftbólur myndast. Gætið þess að baka ekki of mikið, slíkt gerist ansi hratt. Berið fram með bláberjasýrópinu og borðið þær heitar.
*Hér má að sjálfsögðu nota önnur ber í sýrópið. Kókosskonsur

40 g kókosmjólk
2 msk hunang eða agavesýróp
4 msk hveiti eða heilhveiti
6 dl kókosmjöl
½ tsk salt
2 tsk lyftiduft
3 egg, hrærð
4 msk púðursykur eða hrásykur

Komið upp vægri suðu á kókosmjólk og hunangi/agavesýrópi. Blandið þurrefnum saman fyrir utan sykurinn. Hrærið kókosmjólkina saman við þurrefnin. Hrærið eggin varlega saman við svo úr verði mjúk blanda. Þetta má gera kvöldið áður og láta standa í ísskáp.
Hitið pönnu, pönnukökupönnu en helst pönnu sem ekki festist við, á rúmlega miðlungshita. Látið smjörklípu á pönnuna. Setjið um tvær matskeiðar af deigi á pönnuna fyrir hverja skonsu, stráið örlitlum sykri yfir. Snúið skonsunni við þegar loftbólur myndast. Gætið þess að baka ekki of mikið, slíkt gerist ansi hratt. Skonsurnar eiga að vera gullnar að lit. Berið fram og borðið heitar. Grófar vöfflur

50 g spelt
50 g hveiti
50 g hveilhveiti
50 g haframjöl, malað í matvinnsluvél*
1 ½ msk birkifræ
1 msk hrásykur
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
4 ½ dl súrmjólk
3 egg, hrærð
3 msk brætt smjör
3 msk olía; isio, vínberja eða önnur létt olía

Hrærið saman þurrefnin. Hrærið saman súrmjólk, egg og olíu. Blandið saman svo úr verði mjúkt deig. Nú verður vöfflujárn hvers og eins að ráða ferðinni upp á hitann á járninu. En bakið vöfflur og gott er að leggja hverja og eina vöfflu á grind þegar hún er tekin úr járninu, ekki stafla þeim beint upp, svo vafflan nái að haldast stökk og seig.
Berið fram með smjöri og sýrópi, hrásykri, ferskum berjum, skornum eplum, nutella, grískri jógúrt, ís, rjóma – eða smjöri og osti, marmelaði, góðu salati eða hverju sem hugurinn girnist.
*Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið þar til það verður fínt sem heilhveiti. Þessu má sleppa og bæta þá við sama magni af spelti, hveiti eða heilhveiti.
No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...