20 February 2013

kökur: twix kaka?

Gunnar Sverrisson fyrir Home and Delicious

Ég hef haft hugmynd að þessari köku nokkuð lengi eða frá því ég sá mynd af Twix köku á Pinterest. Mjúkur og hvítur botn, þykk karamella og súkkulaði. Einmitt! Um helgina fór ég aðeins að spá nánar í uppskrift, fann þá sem ég hafði fallið fyrir í upphafi en mér fannst hún aðeins of mikið vesen. Mæla karamelluna með hitamæli og slíkt, það er ekki alveg ég svona með sunnudagskaffinu. Þess vegna tók ég botninn úr þeirri uppskrift því hann er svo lítið sætur sem hentar vel á móti karamellunni sem og súkkulaðinu. Karamellan er gömul uppskrift frá mömmu sem ég nota alltaf en ég bætti í hana sjávarsalti og þá átti að vera mjólkursúkkulaðihjúpur yfir öllu saman en þar sem ég átti það ekki bræddi ég Mars-súkkulaði til að bjarga mér. Sko – kakan var alveg geggjuð þótt hún yrði ekki alveg eins og Twix-súkkulaði í útliti, og kláraðist eiginlega aðeins of fljótt. Ég skora á ykkur að gera þessa.

–Sjá uppskrift með því að ýta á lesa nánar hnappinn–Twix kaka sem eiginlega er ekki Twix kaka

botn:
60 g smjör
60 g sykur / 1/4 bolli
1 egg
1/2 tsk vanilla
90 g hveiti / 3/4 bolli
1 msk lyftiduft
1/4 tsk salt
60 ml mjólk / 1/4 bolli

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, bætið eggi saman við sem og vanilludropum og hrærið vel. Setjið þurrefnin saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Þetta er lítil uppskrift og ég get alveg mælt með því að tvöfalda hana. Þá passar hún í venjulegt brauð-kökuform. Annars er ekki gert ráð fyrir að þessi uppskrift fari nema í form sem er 20x10 cm. Smyrjið formið vel að innan eða notið bökunarpappír. (Það gerði ég, því ég lét kökuna kólna í forminu og smurði þá karamelluna á kökuna í forminu. Lét hana kólna áfram og storkna þannig). Bakið í um 20 mínútur, gætið að því að baka hana ekki of lengi, þá verður hún þurr. 

karamella:
120 g sykur
2 msk sýróp
1/4 l rjómi 
1/2 tsk sjávarsalt
30 g smjör
1/2 tsk vanilludropar

Ef þið bakið tvöfalda uppskrift af botninum þá þarf að tvöfalda þessa uppskrift líka. Hitið saman sykur, sýróp, rjóma og salt í potti og látið suðuna koma upp. Lækkið aðeins hitann og látið suðuna haldast stöðuga allt þar til karamellan hefur þykknað verulega. Hrærið reglulega í henni. Hrærið þá smjörið saman við sem og vanilludropana. Látið karamelluna kólna og stífna í pottinum áður en þið smyrjið henni á botninn. Stingið kökunni aðeins í ísskáp til að karamellan stífni enn frekar. Þegar svo er komið, takið þá kökuna úr forminu og þá ætti karamellan að halda sig á toppi kökunnar. 

súkkulaði:
hér getið þið notað hvaða súkkulaði sem þið viljið
suðusúkkulaði, rjómasúkkulaði, Mars-súkkulaði

Bræðið súkkulaðið og látið það kólna nokkuð vel. Ef það er ekki gert hefur það áhrif á karamelluna og allt fer að renna til. Smyrjið súkkulaðið á kökuna. Látið kólna vel og storkna. Berið fram og njótið! No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...