21 February 2013

hönnun: andrea brugiÍ hinu ægifagra Toscana héraði á Ítalíu býr handverksmaðurinn Andrea Brugi. Andrea er óðum að skapa sér nafn fyrir einstaklega fallega völundarsmíði sem unnin er í anda hinnar ítalskættuðu hæglætisstefnu. Vinnustofa Andrea, rétt fyrir utan miðaldaþorpið Montemeramo, er drekkhlaðin frá gólfi og upp í rjáfur af aldagömlum viðarbolum, plönkum og þaksperrum sem bjargað hefur verið úr gamalli kirkju í nágrenninu. 
Í höndum Andrea öðlast trjábolir úr eik, hnotu, ólífuviði og fleiri viðartegundum nýtt líf þar sem Andrea töfrar fram stóla, borð, fatahengi, bekki, kolla, saltstauka og skurðabretti þar sem hver hlutur er algjörlega einstakur og ólíkum öllum öðrum. Skurðabretti marínerast dögum saman í nærandi ólífuolíubaði áður en þau eru tilbúin til notkunar í eldhúsum nýrra eiganda og ef eitthvað er eykst fegurð þeirra við hverja notkun.
Handverk Andrea hefur gjarnan barnslegt yfirbragð; formin eru frjálsleg og gróf, langt frá því að fylgja stífum geometrískum ramma enda hefur Andrea sjálfur sagt að það sé ekki hann sem móti viðinn, í efniviðnum sjálfum sé formið falið og það er efniviðarins að stýra hinni endanlegu útkomu.
Verk Andrea eru m.a. fáanleg í gegnum vefsíðuna slowfashionhouse.com. Vefsíða hans er andreabrugi.com.

–Gerður / kool and kreative

Ljósmyndir: Ditte Isager / stílisti: Christine Rudolph

No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...