21 January 2013

matur: tveir ofureinfaldir pottréttir


Tveir ótrúlega góðir og einfaldir pottréttir sem hæfa vetri og veðri. Ég hef gert þessa lengi og þeir standa alltaf fyrir sínu. Flottir og grófir til að bjóða upp á í óformlegu matarboði. Skora á ykkur að prófa þá – þeir hafa mælst vel fyrir hjá börnunum.

–Grófur lampapottur–

–Svínapottur með eplum og sellerý–

Sjá uppskriftir að neðan með því að ýta á lesa nánar hnappinn


Myndir: Gunnar Sverrisson fyrir Home and Delicious
Grófur lampapottur

Þessi lambapottur er ótrúlega fljótlagaður og skemmtilega einfaldur og grófur ef verið er að bjóða í mat. Hann er líka kraftmikill og hæfir árstímanum.

1 kg gott lambakjöt, skorið í bita
2 msk olía og 2 msk smjör til steikingar
1 ½ kg grænmeti, gróft skorið:
–kartöflur
–sætar kartöflur
–gulrætur
–rófur
–laukur
–hvítkál
salt og svartur pipar
1 l kjötkraftur

Hitið ofn í 100 gráður. Brúnið kjötið í olíu og smjöri. Kryddið. Setjið í stórt fat eða ofnfastan pott. Setjið grænmetið yfir og allt um kring. Stráið salti og pipar yfir það. Hellið kjötkrafti yfir kjötið og grænmetið þannig að fljóti vel yfir. Stingið í ofn og eldið í a.m.k. 80 mínútur. Stráið steinselju yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með góðu brauði. Uppskrift fyrir 5-6.
Svína- og eplapottréttur

Epli fást alls staðar og alltaf og þau mætti því nota meira til matargerðar. 
Í þennan rétt má nota hvaða epli sem er.

25 g smjör
500 g svínakjöt að eigin vali, skorið í bita
6 skalottulaukar eða 1 blaðlaukur, skorinn fínt
3 stönglar sellerí, sneiddir fínt
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
300 ml eplasider eða eplasafi
150 ml kjötsoð
300 g epli, afhýdd, hreinsuð og skorin í grófa bita
hnefi fersk, söxuð steinselja
100 ml rjómi
salt og svartur pipar

Brúnið kjötið í smjöri í djúpum potti. Takið kjötið af pönnunni. Mýkið laukinn í smjörinu, bætið selleríi, berki, sider og soði saman við og sjóðið í 3 mínútur. Setjið kjötið út í sósuna og látið malla í 25 mínútur. 
Bætið eplum og rjóma saman við og látið malla í aðrar 10 mínútur, hrærið steinseljuna saman við og kryddið að ykkar smekk. Berið fram. Góður réttur með hrísgrjónum eða kartöflustöppu og brauði. Uppskrift fyrir 4.


No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...