14 January 2013

matur: súpur fyrir vikuna

                                                                                                Myndir: Gunnar Sverrisson / Home and Delicious

Súpur – gjaldgengar allt árið en þó er löngunin í þær meiri þegar er dimmt og kalt úti. Á þessum árstíma sækjum við í annars konar mat en við borðuðum yfir hátíðarnar og hér eru það sætar kartöflur, aspas, og fiskur sem eru í forgrunni að súpunum sem við gefum ykkur uppskriftir að. 

Kartöflulöguð aspassúpa með tarragon-rjóma

Kókoslöguð fiskisúpa

Sætkartöflusúpa með beikoni


–Sjáið uppskriftirnar að neðan með því að velja lesa meira hnappinn–Kartöflulöguð aspassúpa
með tarragon-rjóma

20 g smjör
1 laukur, fínt saxaður
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
2 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
1/2 l kjúklingasoð
400 g ferskur aspas eða góður úr dós
salt og svartur pipar

Tarragon-rjómi:
2 msk ferskt, saxað tarragon, mega vera aðrar kryddjurtir
1 dl sýrður rjómi
½ tsk rifinn sítrónubörkur
2 msk þeyttur rjómi

Byrjið á því að útbúa rjómann en athugið að hér má sleppa tarragoni og setja estragon eða marjoram í staðinn. Einfaldur, þeyttur rjómi virkar líka vel! Saxið tarragonið smátt eða merjið í morteli. Hrærið saman sýrða rjómann og þann þeytta, blandið tarragoni saman við ásamt sítrónuberki. Hrærið vel. Kælið þar til súpan er borin fram og látið bragðið taka sig.
Bræðið smjörið á miðlungs hita í góðum potti. Mýkið lauk og hvítlauk í smjörinu. Setjið kartöfluteninga saman við. Hellið soði í pottinn. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5 mínútur. Ef notaður er ferskur aspas þarf að snyrta af honum trénaða enda og skera hann í litla bita. Bætið aspasinum saman við súpuna og sjóðið í aðrar 10 mínútur eða þar til bitarnir eru mjúkir. Smakkið til með salti og pipar. Maukið helming súpunnar með töfrasprota, þannig þykknar hún. Hrærið súpuna saman. Berið fram með tarragon-rjómanum en hann mýkir súpuna upp og gefur henni kremkenndara bragð.Kókoslöguð fiskisúpa

1 msk olía
600 ml kókosmjólk
250 ml kjúklingasoð
60 ml fiskisósa
2 msk púðursykur
600 g hvítur fiskur að eigin vali, skorinn í 3 cm bita
hnefafylli af grænkáli eða klettasalati
safi úr hálfri til einni sítrónu
soðnar hrísgrjónanúðlur, magn eftir smekk
ferskt kóríander til skrauts

Mauk:
4 cm ferskt engifer
2 hvítlauksrif
1 ferskt, grænt chilí
2 msk ferskt kóríander
1 tsk kúmín

Byrjið á því að sjóða hrísgrjónanúðlur skv. leiðbeiningum á pakka. Setjið allt hráefnið sem fer í maukið í matvinnsluvél og maukið vel. Hér getið þið minnkað magnið af chillíinu til að hafa maukið ekki of sterkt. Hitið olíu í potti á meðalhita. Setjið maukið í olíuna, hrærið í 2 mínútur svo það hitni og taki sig í olíunni. Hellið kókosmjólk og soði, sykri og fiskisósu saman við og látið malla í 5 mínútur. Setjið fiskbitana og salatið saman við og látið malla þar til fiskurinn er soðinn, um 3-5 mínútur. Smakkið til með sítrónusafa. Setjið soðnar hrísgrjónanúðlur í skál og ausið fiskisúpunni yfir. Berið fram.Sætkartöflusúpa með beikoni

3 meðalstórar, sætar kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
4 msk ólífuolía
10 sneiðar beikon, skorið í bita
2 fersk hvítlauksrif, söxuð
2 tsk paprikuduft
1 laukur, fínt saxaður
1 l kjúklingasoð
safi úr hálfri sítrónu
salt og svartur pipar
sýrður rjómi
stökkt beikon til skrauts

Hitið ofn í 200 gráður. Veltið kartöflunum upp úr 2 msk af ólífuolíu og bakið í ofni í 15-20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar. Steikið beikon á pönnu þar til nokkuð stökkt. Mýkið lauk og hvítlauk í 2 msk af olíu í góðum potti, bætið beikoninu saman við, stráið paprikudufti yfir. Hrærið. Hellið soðinu yfir, hrærið og látið suðuna koma upp. Setjið sætu kartöflurnar saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Maukið súpuna að því loknu með töfrasprota, eða setjið gætilega í matvinnsluvél. Smakkið til með salti, pipar og sítrónusafa. Berið fram með sýrðum rjóma og örlitlu af stökku beikoni. Þessi súpa er skemmtilega öðruvísi en maður á að venjast.

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...