17 January 2013

matur: aspas, humarpasta og ananas–Máltíð eða matarboð–

Ein hugmynd að réttum sem passa vel saman í góða helgarmáltíð eða óformlegt matarboð. Ferskur aspas í forrétt, pasta með humarsósu í aðalrétt og ferskur, grillaður ananas í eftirrétt. Uppskriftir og myndir úr öðru tölublaði af Home and Delicious.

Ferskur, soðinn aspas með smjöri, eggi og parmesan

Spagettí með humarsósu

Grillaður ananas með Nutella-súkkulaðisósu


Sjáið uppskriftirnar að neðan með því að velja lesa nánar hnappinn

Ljósmyndir Gunnar Sverrisson / Home and Delicious

Ferskur aspas með smjöri, eggi og parmesan

Ferskan aspas er hægt að kaupa stóran og lítinn. Sá litli er hentugur til að nota í matarboð, það er oftar hægt að nálgast þann stóra. Ótrúlega góður réttur og fljótlegur sem kemur öllum á óvart sem ekki hafa notað ferskan aspas áður. Ég hvet ykkur til þess.

ferskur aspas, lítill, um 8–10 stönglar á mann, stór 4-6 á mann
egg, 1 á mann
smjörklípa eða góð ólífuolía
rifinn parmesanostur
salt og pipar ef vill

Snyrtið aspasinn, það getur þurft að skera trosnaða enda af honum að neðan. Sjóðið í nokkrar mínútur í saltvatni en suðutími fer algjörlega eftir stærð stönglanna. Sjóða þarf aspasinn þar til hann er mjúkur þegar stungið er í hann með oddhvössum hníf.
Sjóðið egg, frekar lítið svo rauðan springi yfir aspasinn. Athugið að hér má fara einfaldari leið og spæla egg í staðinn. Þerrið aspasstönglana og setjið heita á disk. Smjör og olíu yfir. Þá egg og nóg af parmesanosti. Salt og pipar ef þið viljið.


Spagettí með humarsósu

Barnvænn réttur sem fjölskyldan öll getur fallið fyrir.  

600 g kirsuberjatómatar
1 rautt chillí, fræhreinsað og skorið smátt
½ laukur eða 2 skalottlaukar, saxaðir
1 hvítlauksrif, saxað
50 g smjör
salt og pipar
1½ dl hvítvín
400 g spagettí
750 g humar, skelflettur og hreinsaður, skorinn í munnbita
1 dl rjómi
hnefi fersk basilíka, söxuð

Látið tómata, chillí, lauk, hvítlauk og smjör malla á pönnu á vægum hita í 10 mínútur eða þar til laukurinn er mjúkur. Kremjið tómatana á pönnunni. Saltið og piprið. Hellið víninu yfir og látið malla í 5 mínútur eða þar til vínið hefur gufað upp.
Sjóðið spagettíið á þessu stigi eldamennskunnar.
Hellið rjómanum út í sósuna og hrærið saman. Setjið humarinn út í heita sósuna og látið malla í 2–3 mínútur eða þar til hann er heitur og eldaður í gegn.
Blandið sósunni saman við spagettíið. Stráið basilíku yfir áður en borið fram. Sumir vilja strá parmesanosti yfir en ekki eru allir á því að nota hann með fiski, svo ykkar er valið.


Grillaður ananas með Nutella-súkkulaðisósu

Ferskur ananas fæst alls staðar og alltaf og það er um að gera að nota hann. 
Þessi hugmynd er einföld og gómsæt. 

1 ferskur ananas, skorinn í sneiðar
½ b hnetur að eigin vali, pistasíur og heslihnetur eru góðar, saxaðar
¼ tsk vanilludropar
b mascarpone-ostur við stofuhita
b Nutella-súkkulaði í krukku
3 msk rjómi

Afhýðið ananasinn og skerið í sneiðar. Kjarnhreinsið. Gott er að brúna á þessu stigi, á pönnu eða í ofni, þær hnetur sem þið veljið að nota í réttinn.
Hrærið vanilludropana saman við mascarpone-ostinn og mýkið ostinn vel. Gott er að láta hann standa við stofuhita í nokkurn tíma svo betra sé að eiga við hann.
Hitið Nutella og rjóma saman í potti við vægan hita.
Grillið ananassneiðarnar á útigrilli eða grillpönnu þar til hann er heitur í gegn, um 3 mínútur á hlið. Snúið sneiðunum bara einu sinni svo myndist fallegar grillrákir. Setjið tvær sneiðar á disk. Dreypið Nutella-sósu yfir, setjið mascarpone-klípu í miðjuna og stráið hnetum yfir. Berið fram heitt.

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...