24 January 2013

hönnun: kenya hara


Gerður Harðardóttir hefur undanfarin ár skrifað greinar í helstu tímarit landsins sem sjálfstætt starfandi blaðamaður auk þess sem hún hefur unnið sem stílisti fyrir sjónvarp, tímarit, auglýsingaherferðir og bækur. Gerður skrifar í Home and Delicious og mun vera með fasta pisla á vefsíðunni okkar. Þá bloggar hún einnig á Koolandkreativ.blogspot.com.

Kenya Hara

Mér hefur alltaf þótt eitthvað ótrúlega heillandi við Japan og allt sem þaðan kemur. Japönsk hönnun og arkitektúr finnst mér til dæmis alveg einstaklega hrífandi og forvitnileg. Það sem gjarnan einkennir japanska hönnun er spartanskur einfaldleiki, framúrstefnuleg hugsun og einstök fagurfræði. Kenya Hara er leiðandi nafn í japanska hönnunarheiminum en hann hefur síðan 2001 verið listrænn stjórnandi Muji keðjunnar. Kenya er grafískur hönnuður að mennt og hefur sem slíkur hannað veggspjöld, umbúðir og lógó fyrirtækja en er þó líklegast þekktastur fyrir einstaka sýn sína á nútímahönnun sem hann hefur m.a. miðlað í gegnum fyrirlestra, sýningar og bækur eins og Designing Design og White sem ég hvet eindregið alla sem áhuga hafa á hönnun að kynna sér. Þar fjallar Hara um japanska hönnun dagsins í dag og hvernig hún fléttast saman við aldagamla japanska fagurfræði, heimspeki og trú sem oft er okkur Vesturlandabúum afar framandi. Hara hefur einnig notið vinsælda sem sýningarstjóri og listrænn ráðunautur en meðal þekktustu verka hans á því sviði er listræn stjórnun á opnunar- og lokaatriðum Vetrarólympíuleikanna í Nagano í Japan árið 1998. Hara vinnur oft með hönnuðum og arkitektum annars staðar að úr heiminum þar sem hann setur þeim fyrir spennandi verkefni eins og að hanna upp á nýtt hluti sem við notum í okkar daglega lífi, þar á meðal klósettrúllur og pasta. Hara er maður sem hugsar algjörlega út fyrir boxið og snýr hversdagslegum hlutum á hvolf en verk hans byggja oft á skynfærum okkar, þ.e. lykt, snertingu, sjón, heyrn og bragði. Nálgun Hara á hönnun og hlutverki hennar er allt í senn, heillandi, framandi, fersk og nýstárleg. Meira um Kenya Hara hér.

–Gerður No comments:

Post a Comment

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...