31 July 2012

Heima – Ilse Crawford


Að halda í sérkenni og sögu þegar verið er að gera upp gömul hús en ná samt að kalla fram nýtt og nútímalegt yfirbragð er ekki allra. Það er vandmeðfarið ferli og krefst hugsunar og vinnu við að grafa upp söguna, lífið í húsinu í gegnum tíðina, litina, húsgögnin, hvernig fólk var þar og hver tilgangurinn með byggingunni var. Allar upplýsingar eru notaðar til að fá innblástur og vinna með í að ná yfirbragði sem sótt er eftir. Á þennan hátt vinnur breski hönnuðurinn Ilse Crawford og starfsfólkið hennar hjá Studio Ilse í London. Ilse var fyrsti ritstjóri breska Elle Decoration en vinna hennar þar leiddi hana frekar inn á braut eigin vinnu og hugmynda sem tengd er innanhússhönnun. Hún kafar djúpt í vinnu sína þegar kemur að hinum mannlega þætti hönnunar, sem hún segir snerta alla þætti umhverfis okkar, og setja mark sitt á hegðun og líðan. 

Í byrjun sumars var opnað lítið hótel í Stokkhólmi sem Ilse Crawford hannaði ásamt sínu fólki. Þegar talað er um að hún hafi hannað eitthvað er fólgið í því að koma að allri vörumerkjaþróun og hönnun, heilstæðri hugmynd sem unnið er út frá, allt frá stærstu hlutum til minnstu smáatriða. Hótelið heitir Ett Hem og um er að ræða gamalt og virðulegt hús byggt 1910 sem gert var að tólf herbergja hóteli þar sem tilfinning gesta skal vera „heimili að heiman". Með því að skoða myndirnar vel má greina þá einlægni sem finnst í hönnun Studio Ilse. Skandinavísk, klassísk hönnun og antíkmunir, vandað litaval, þægindi og einfaldur glæsileiki. Myndir frá Ett Hem og Nordic Design.
Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...