17 May 2012

uppröðun á húsgögnum og minotti

Mér finnst ótrúlega gaman að velta fyrir mér skipulagi og uppröðun á húsgögnum! Það er spennandi að geta raðað upp hjá sér í herbergi á óvenjulegan hátt, nota húsgögnin öðruvísi og sjá útkomuna og hve áhugaverð umgjörð skapast. Á hönnunarsýningunni Salone de Mobile að þessu sinni, sem haldin er í Mílanó á hverju ári, var ekki margt nýtt í kortunum að sögn margra sem voru þar og m.a. tveggja vinkvenna minna. Það sem aðallega vakti athygli var notkun á litum og textíl og hvernig má nota ólíka áferð á húsgögnum og aukahlutum saman í rými. 
Ég rak samt strax augun í Minotti sýningarsvæðið og umgjörðina þar á myndum sem ég var að skoða. Einmitt vegna þess að uppröðunin á húsgögnunum hjá þeim var rosa flott og öðruvísi og þeir púsluðu saman ólíkum húsgögnum og með ólíkri áferð. 


Hér má ímynda sér að sjónvarpið sé á móti sófanum. En þá er sófaborð sett fyrir framan sjónvarpsborðið, frekar nálægt, pulla með, hægindastóll skásettur og lítið hliðarborð með honum. Ekki mjög hefðbundið en kemur vel út. Mjög margir sem gætu reynt þetta heima og fengið út allt annað rými.


Á móti sófa er hægindastóll með skemli skásettur en takið svo eftir stólunum tveimur og staðsetningu þeirra; ekki beint á móti sófanum, heldur vel til hliðar og borð á milli þeirra. 


Margir geta haft sófa frístandandi, ekki upp við vegg. Hér er borð sett beint fyrir aftan sófann og tengir þannig tvö rými saman, og lægra borði skotið undir það hærra og notað sem hliðarborð við sófann. 


Tveir góðir stólar stakir á móti sófa en töluvert á milli þeirra. Tvö lítil og ólík borð eða kollar á milli stólanna. Sófaborðið nær sófanum en stór pulla á miðju gólfi og nær öðrum stólnum. Skenkurinn þarna á milli en takið eftir að hann er ekki upp við vegg, heldur nálægt því sem mætti túlka sem glugga í svona sýningarými. Staðsettur svolítið frá glugganum. Það er nefnilega mjög góð hugmynd í svona opnu rými því húsögögn eru mörg hver falleg að aftan og ekkert að því að hafa þau við glugga, sbr. þar sem er strimlagardína. Fallegt dót ofan á skenknum sést þá út og skapar fallega ásýnd utan frá. Með því að staðsetja skenk á þennan hátt má einmitt leika sér miklu meira með uppröðun.


Stólar staðsettir í horni á móti sófa, borð á milli þeirra og til hliðar við annan þeirra. Kollar inn á milli og bekkur til hliðar. Óvenjulegt. Sömuleiðis má taka eftir litanotkuninni hér, falleg litapaletta og vandlega valin en margir litir í einni stofu. 


Stór sófi, einn stóll með skemli í horni á móti, lítill kollur við sófann og sófaborðið langt frá. Staðsett í horninu og þrjú borð látin falla saman í ólíkri hæð. Sem sagt ný útfærsla á innskotsborðum.


Þrír sófar saman, tveir eins klæddir taui og einn leðursófi. Tveir hægindastólar á móti, eins en í ólíkum lit. Stórt sófaborð í horni milli sófa, kollur og standlampi saman. 


Fyrir þá sem hafa stórt svefnherbergi en uppröðunina má einnig heimfæra á stofu. Borð fyrir aftan og til hliðar við sófa. Stólar með en staðsettir svolítið langt frá, pullur og kollar og stór pottaplanta. 
Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...