26 April 2012

salat með breyttu sniði


Þetta salat var sett saman í hádeginu. Þegar við hjónin vorum í Barcelona í fyrrasumar fengum við ótrúlega gott salat á veitingastað sem heitir Brown. Í raun er um að ræða hefðbundið Caprese, tómata og mosarella, en með smá tilfæringum sem gera þetta eitthvað svo ferskt, einfalt og meira framandi. Ég reyndi að muna samsetninguna og hún er nokkurn veginn svona. Í uppskriftinni er ekki tilgreint magn, algjör óþarfi, því það er smekksatriði.
Salatið er góð máltíð og einnig gott sem salat með mat. Gott er að bæta við ristuðum furuhnetum, balsamikgljáðum pecanhnetum, hráskinkusneiðum, plómum eða ferskjum. Það gengur margt með þessu. Þar sem ríkotta er ekki á hverju strái, fæst í sælkerahorninu í Hagkaup, þá má nota kotasælu í staðinn og það er mjög gott.

klettasalat
basilíka, rifin eða söxuð
kóríander, laufin tekin af eða allt saxað
ólífuolía
gott salt og svartur pipar
tómatar, sneiddir
mangó, skorið í teninga
mosarella, rifinn niður
ríkotta-ostur eða kotasæla
balsamedik

Hrærið saman klettasalati, basilíku og kóríander. Setjið á disk, dreypið góðri ólífuolíu yfir, smá salti og svörtum pipar. Smeygið tómatasneiðunum hér og þar inn í salatið, dreifið mangóteningum yfir, sömuleiðis rifnum mosarella. Setjið smá hrúgu af ríkotta eða kotasælu í miðjuna á salatinu. Dreypið örlitlu balsamediki yfir.

myndir gunnar sverrisson
Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...