22 April 2012

góðgæti


Sú daglega athöfn okkar að borða tengir fólk saman. Eldhúsið er samastaður fólks. Rými þar sem daglegar athafnir fara fram. Að ákveða hvað skuli vera í matinn, kaupa inn, undirbúa og elda, setjast síðan niður og loksins borða er athöfn sem við notum til að lifa en í raun má segja að við lifum til að borða.
Að setjast niður og borða saman styrkir böndin. Mannleg tengsl skapast. Við hlustum, skemmtum, upplýsum hvert annað. Eldhúsið er í huga flestra hjarta heimilisins. Það herbergi í húsinu sem oftast er nefnt í uppáhaldi.
Einhverra hluta vegna, þegar haldin eru matarboð, safnast allir saman í eldhúsinu. Þar líður fólki vel. Það nýtur samvista. Margir eyða deginum einir í vinnu, einir að borða hádegismatinn og þá þýðir maturinn ekki það sama. Þarna táknar hann hlýju og væntumþykju og felur það í sér að við tilheyrum einhverjum. Ánægjan sem fylgir því að borða góðan mat er nefnilega orðin miklu sterkari en þörfin ein að næra okkur. Hún er áhugamál sem tengir fólk saman. 

Mér finnst það algjörlega við hæfi að hafa fyrstu uppskriftina í matarþætti síðunnar eitthvað sætt og gómsætt sem þessi kaka er. Hún kallar ávallt fram gleði og hefur verið samnefnari fyrir góðar stundir og samveru þar sem hún er borin fram. Uppskriftin er einnig gefin upp í bollum, fyrir þá sem það vilja.brún „brownies” með hvítum súkkulaðibitum

250 g smjör
250 g suðusúkkulaði
240 g sykur / 1 ½ b
3 egg
225 g hveiti / 1 ½ b
2 tsk lyftiduft
+200 g hvítt súkkulaði, skorið í bita

Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti. Kælið. Hrærið saman egg og sykur þar til ljóst og létt. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og hrærið, stráið þurrefnunum saman við og hrærið. Þá fer hvíta súkkulaðið saman við og allt hrært varlega saman.
Hellið í form, um 23 cm, klætt bökunarpappír. Best að hafa formið kantað. Gætið þess að hafa formið ekki of stórt svo kakan verði ekki mjög þunn. Bakið í 30 mínútur en fylgist vel með bakstrinum upp á bökunartímann, bakið ekki of lengi svo kakan verði ekki hörð. Stingið í hana prjóni og hann skal koma ögn kámugur út.
Kælið kökuna áður en hún er skorin og borin fram. Fallegt að strá yfir hana flórsykri eða kakói.

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...