27 May 2015

FYRIR BÓKAUNNENDUR

HEIMSÓKN

Bækur eru nauðsynlegar á hverju heimili. Til yndislesturs, fróðleiks, skemmtunar og að lokum til skrauts. Þetta heimili í Kaliforníu á bókelskan eiganda sem virkilega nýtir bækurnar á annan hátt en að setja þær beint upp í hillu. Bækur eru bókstaflega um allt og tímarit fljóta með. Bækur eru notaðar til að stafla, búa til hæðir í uppstillingum, undir borð og í raun á frjálsan og skemmtilegan hátt. Langt frá stífum uppstillingum sem hreyfast lítið í tímans rás. Persónulegum hlutum er smeygt með og innan um allt og úr verður blanda sem gaman er að skoða. 


22 May 2015

BLÓMABÖRN

SKREYTINGAR
Afskorin blóm færa okkur litina sem hvert herbergi og heimili þarfnast. 
Góða og blómlega helgi! 

20 May 2015

HVAR EIGA PLÖNTUR HEIMA?

SKREYTINGAR
Plöntur eiga heima alls staðar. Pottaplöntuframboðið er miklu meira en bara fyrir ári síðan sem þýðir að eftirspurnin er greinilega meiri. Plöntur gera mjög mikið fyrir heimilið og það er gaman að skreyta með þeim og nota þær á ýmsa vegu. Einar og sér, margar saman í hóp, hangandi, á gólfi, stórar og fyrirferðamiklar, smáar og  lítillátar. Myndirnar sýna nokkra góða og einnig öðruvísi staði til að staðsetja plöntur inni á heimilinu. Þið sem hafið ekki farið þá leið að vera með plöntur heima, skoðið það með opnum huga að breyta því! 


19 May 2015

TÖFRAR TOSKANA

HEIMSÓKN
Um leið og maður heyrir „hús í Toskana" þá verður maður forvitinn og vill skoða meira. Tilfinningin um að dvelja í fallegu húsi úti í sveit á Ítalíu, þar sem útsýnið eitt ríkir, sólin skín og hlýr andvarinn gerir vart við sig... Það er sennilega tilfinningin sem hjónin Marieke and Mark van Kruisjbergen vildu finna þegar þau ákváðu að kaupa sér frístundahús í Toskana. Í gegnum árin höfðu þau heimsótt Ítalíu í fríum sínum en ákváðu að stíga skrefið til fulls og hafa þar fast afdrep. Þetta afdrep þeirra sjáum við á myndunum. Gamalt hús, algjörlega endurgert og virkilega huggulegt í alla staði. Það sem heillaði mig við húsið þegar ég sá myndirnar, voru flotuð gólfin og grófu viðarborðin í innréttingum og húsgögnum. Ég er sérlegur áhugamaður og hvort tveggja. Hvít skelin er hrein og falleg í hitanum en steypan og timbrið koma inn með sterk sérkenni sem fá að standa án samkeppni við annað hráefni...fyrir utan landslagið! 


15 May 2015

DÖKK SVEFNHERBERGI

INNANHÚSS


Dökkt svefnherbergi – gæti verið það sem þú þarfnast einmitt núna þegar birtan er farin að segja til sín hérna á Íslandi. Þegar lagst er í rúmið og það er nánast bjartur dagur...alla nóttina...og þegar maður vaknar! Að hafa svefnherbergið sitt málað í dökkum lit getur hjálpað mikið til við það að ná slökun og hvíld í þessari birtu, fyrir utan það að herbergið verður fallegt og öðruvísi. Fyrir þá sem aðhyllast dökka liti þá er lítil hætta á því að fara aftur yfir í ljósu línuna þegar kemur að svefnherberginu. Það er einfaldlega of notalegt, þægilegt, kósý, ávísun á betri hvíld og svefn. Margir ýja að því að það sé alltof dökkt að hafa dökkmálað þegar er dimmt úti þessar vikur og mánuði. En þar er ég algjörlega óssammála. Að horfa inn í fallegt svefnherbergi í dökkum lit þar sem mjúk lýsing af lampa gerir rýmið aðlaðandi er einmitt það sem maður vill sjá. 


12 May 2015

EINSTAKT HEIMILI: AMANDA HARLECH

HEIMSÓKN
Ég hef náð að leggja síðasta pússlið í pússluspilinu! Nýlega skrifaði ég um gömul skólaborð og birti m.a. mynd af skrifborðinu sem er á mynd númer þrjú hér að neðan. Ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þá uppgötvaði ég fljótlega að myndin hér að neðan er hinn helmingurinn af stofunni og að myndin af stóru pappírskúlunni, sem ég elska líka, er sama heimilið. Þarna small allt saman og er heimili hinnar bresku Amöndu Harlech í Shropshire á Englandi. Þar sem ég er sérlegur áhugamaður um bresku sveitirnar, þá heillar þetta mig algjörlega. Einstaklega öðruvísi, persónulegt og bara fallegt. En til að segja aðeins frá Amöndu þá er hún þekkt fyrir það að vera listrænn ráðunautur og einstök smekkkona, mjúsa Karls Lagerfeld og John Galliano, og komist á lista yfir best klæddu konur Bretlands frá upphafi alda! 

11 May 2015

SMEKKUR HVERS OG EINS

TÍSKA
Það fer eftir smekk hvers og eins hvort hann vill klæðast smekkbuxum! Að sjálfsögðu. Smekkbuxur hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég klæddist þeim sem barn (ég og mamma áttum eitt sinn eins buxur, líklega var ég 6 ára og hún þá 29). Það fannst mér geggjað. Síðustu smekkbuxur keypti ég líklega 12 eða 13 ára. Þær voru í það miklu uppáhaldi að ég geymdi þær alltaf og nú er Lea mín 11 ára farin að vera í þeim. Venjulega hugsa ég ekki um það hvað klæði konur á hvaða aldri og slíkt. Vil frekar að konur klæði sig nákvæmlega eins og þær vilja og eins og þær vilja koma fram. En það er eitthvað við smekkbuxur sem segir mér að ég sé nú orðin smá of gömul til að fara í þær (...nema ef ég væri að sinna sveitastörfum, í skyrtu innan undir og með hatt – geggjað dress í það). Það myndi frekar „hæfa" mínum settlega aldri að ég væri í svona heilgalla eins og á myndinni hér að neðan. Ég hef samt uppgötvað af hverju ég hef þessa skoðun: Líklega þykir mér bara smekkbuxnatími dætra minna runninn upp, að þær upplifi þessa sömu smekkbuxnatilfinningu...og ég er víst ekki 29 eins og mamma var þegar við vorum klæddar eins þannig að það mun ekki koma að því heldur! 


07 May 2015

SPÍNAT- OG ÞISTILHJÖRTUÍDÝFA FYRIR HELGINA

MATURGunnar Sverrisson / Home and Delicious

Ekta amerískur draumur. Ídýfa sem gengur í öllum boðum og partýjum, jafnt sumar sem vetur. Sniðug á hlaðborð þar sem fólk á öllum aldri kemur saman. Þetta er bara helgarídýfan sem ég skora á ykkur að prófa. Athugið að uppskriftin er stór en ég mæli með því að þið gerið hana alla og frystið það sem ekki er borðað. Það er ekki slæmt að eiga slíkan draum í frystinum og grípa í við tækifæri. Uppskriftina má einnig finna á Gott í matinn hjá MS. 06 May 2015

VILTU KÍKJA Í EFNABÚÐ Í LONDON?

FERÐALÖG
Þegar fólk skreppur í borgarferðir eins og til London, þá vill það virkilega nýta tímann vel án þess að vera í eilífri leit að einhverju góðu, skemmtilegu og öðruvísi. Þess vegna eru öll ráð og tillögur vel þegnar að einhverju áhugaverðu að skoða og gera. Fyrir áhugasama um textíl og efni, sem er órjúfanlegur hluti af því að gera umhverfið sitt hlýlegt og mjúkt, þá er efnabúðin Cloth House vefnaðarvöruverslun í heimsklassa. Margir velta því fyrir sér hvað þeir eigi að gera í slíkri búð í borgarferð en það verður enginn svikinn af því að kíkja inn í Cloth House. Tvær verslanir nálægt hvor annarri sem hvor um sig sérhæfir sig í ákveðnu efnum. Bómull og hör í þeirri sem myndirnar er teknar. Úrvalið gerir mann hugfanginn og ímyndunarveikan í allt sem hægt er að gera úr þessum efnum sem koma alls staðar að úr heiminum. Púðar, dúkar, teppi…

47 og 98 Berwick Street Soho

05 May 2015

INNANHÚSS-INNSPÝTING

INNANHÚSS
Þegar þetta er fyrirsögnin þá vita dyggir lesendur hvað það þýðir. Bara hellingur af flottum myndum til að gefa okkur smá innspýtingu og innblástur. Stundum er þörf á því til að halda sér gangandi! Ýtið á Lesa nánar hnappinn hér að neðan til að skoða miklu fleiri myndir. 

Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...