27 October 2016

TÍMI BORÐDÚKANNA ER UPPRUNNINN

INNI I SKREYTINGAR
Þetta er áminning um að hafa það í huga að skella dúk á borðið. Það er opinber borðdúkatími. Það er eitthvað skemmtilega rómantískt og heillandi við dúkað borð eins og þetta á myndinni. Sem sagt alls ekki þennan stífa, pressaða, veitingahúsadúk. Heldur sjarmerandi, afslappaðan dúk úr hör eða grófri bómull. Ég veit að þið segist ekki nenna því að vera alltaf að þvo dúkinn en prófið í það minnsta á borði sem er ekki í stöðugri notkun. Sjáið hvað er gaman að breyta og hvað dúkurinn gerir mikið. 

26 October 2016

LÝSING TIL ÞÆGINDA OG YNDISAUKA

INNI I LJÓS
Lýsing er til að lýsa upp þann stað þar sem við þurfum á lýsingu að halda. Lýsing er til að lýsa okkur veginn, til að skapa hlýtt andrúmsloft. Hún er til þæginda og yndisauka. Alltof margir líta á lýsingu á þann hátt að hún eigi að lýsa upp heilu og hálfu byggingarnar. Kveikja öll innbyggð loftljós þegar heim er komið seinnipartinn, heimilið er eins og upplýst leiksvið á æfingatíma áður en hafist er handa við að skapa sýninguna. Í raun á lýsing að snúast um allt annað. Lýsing á að snúast um þarfir okkar á henni í hvert skipti. Þegar dimma tekur ættu hangandi ljós, lampar og kerti að taka við og þegar þarf meira er kveikt á sterkari lýsingu sem er þá slökkt þegar hennar þarfnast ekki lengur við. 
Það eru til ótalmörg falleg hangandi ljós í öllum verðflokkum en alltaf er gaman að rekast á ljós sem er virkilega úthugsað og spennandi, eftir áhugaverðan hönnuð en á góðu verði. Formacami ljósin eftir Jaime Hayon eru ein af þeim. Þau eru byggð á þessum gömlu, japönsku hefðum um hrísgrjónapappírsljósin en hönnunin tengd nútímaþörfum. Ég má til með að tala um þau hér því ég er sérlegur aðdáandi pappírsljósa almennt og hef alltaf verið. Það er eitthvað svo innilega áreynslulaust við þau sem heillar mig. Sem og verður lýsingin frá þeim mjúk og þægileg. Lesa nánar til að sjá myndir af ljósunum í  notkun. 


24 October 2016

HEFURÐU HUGLEITT...

INNI I UPPRÖÐUN
...að gefa sófanum í stofunni meira rými? Gera hann að aðalatriðinu? Draga hann frá veggnum og vel inn á mitt gólfið? Ef ekki, veltu því þá alvarlega fyrir þér til að breyta og bæta, gera rýmið áhugavert og spennandi. Auðvitað er það smá erfitt ef stofan er rosa lítil en samt má alveg hafa í huga þessa mynd hér að ofan. Flottur sófi á miðju gólfi býður upp á að minna dóti sé raðað í kringum hann og stærri hlutir fari upp að veggjum að hluta. Eins upp að sófanum sjálfum, sbr. borð fyrir aftan hann og slíkt. Stakir stólar geta verið hluti af þessari stofueyju en eins staðið saman töluvert frá sófanum. Einnig er þetta mjög flott uppröðun fyrir þá sem vilja ekki hafa of mikið dót í kringum sig. Prófið og sjáið hvað getur gengið! Mynd Est Living
19 October 2016

SETIÐ VIÐ GLUGGANN

INNI I GÓÐ HUGMYND
Það er alltaf eitthvað þægilegt við að sitja við glugga og horfa út. Sitja við glugga og vinna. Sitja við glugga og spjalla. Gluggabekkir/sófar eru heillandi fyrirbæri sem mér finnst algjörlega verða útundan þegar kemur að því að innrétta hús og íbúðir. Það er á gríðarlega mörgum stöðum sem eru stórir gluggar sem bjóða upp á þessa hugmynd en einhvern veginn virðist hún ekki koma upp. Að setja upp bekk eða sófa við glugga, fjarri sjónvarpi og tölvum og öðrum skarkala, er ávísun á baráttu um besta sætið. Lesa nánar fyrir fleiri myndir. 
18 October 2016

KLASSÍK Í KLASSÍSKU UMHVERFI

INNI I HÖNNUN
Verner Panton er einn þeirra skandinavísku hönnuða sem skyldu eftir sig sterka arfleifð, mikinn auð. Verk hans eru klassík í hönnunarsögunni og með slíka hluti er alltaf gaman að sjá þá setta fram á fallegan og öðruvísi hátt. Myndin að ofan er einstaklega falleg, ég sá hana í tímariti og hún fékk mig til að staldra við. Sjáið litinn á veggjunum, gólfið og hvernig þessi klassíska hönnun Pantons dregur fram sterkt umhverfið og fegurð þess, á sama tíma og umhverfið dregur fram sérstöðu húsgagnanna. Lesa nánar fyrir fleiri fallegar myndir af hönnun Pantons. 
14 October 2016

FLÍSALAGÐUR HÖFÐAGAFL

INNI I GÓÐ HUGMYND
Flísalagður höfðagafl er ansi góð hugmynd til að spá í ef þig vantar fallegan höfðagafl við rúmdýnuna. Virkilega öðruvísi en allt annað á markaðnum og ímyndið ykkur möguleikana! Myndin er via Est living
13 October 2016

LJÓS OG SKUGGAR Á HEIMILI LJÓSMYNDARA

INNI I HEIMSÓKN
Heimili þar sem ljós og skuggar eru í aðalhlutverki. Heimili ljósmyndara sem eingöngu vinnur með dagsbirtuna. Heimili hinnar sænsku Piu Ulin sem býr í Brooklyn í New York. Skoðaði þetta innlit fyrir einhverju síðan en hnaut um það á síðunni Remodelista. Langaði að sýna ykkur það og pósta. Fallegt og öðruvísi. Smellið hér til að sjá allar myndirnar. 
12 October 2016

HEFUR ÞÚ ÍHUGAÐ...

INNI I LITIR

...að mála sama vegginn í tveimur litatónum? Eins og á þessum hér að ofan. Hann er í tveimur gráum tónum. Dekkri tóni upp af arninum og ljósari gráum, með örlítið grænni slikju, sitthvorum megin við. Kemur ofsalega fallega út að mér finnst og margir sem gætu farið þessa leið til að breyta hjá sér! 
11 October 2016

SVEITASÆLA Í UPPSVEITUM NEW YORK

INTERIORS I HOME VISIT
Á Instagram er ýmislegt skemmtilegt og það er sá samfélagsmiðill sem mér þykir áhugaverðast að fylgja. Einn þeirra sem mér finnst gaman að skoða hjá myndir er Hollendingurinn Frank Muytjens, en hann er yfirhönnuður karlmannalínunnar hjá J. Crew. Frank er smekkmaður og tekur gjarnan myndir af bústaðnum sínum í uppsveitum New York. Það er einstaklega huggulegt hjá honum í sveitinni og svo eldar hann og bakar girnilega. Það var svo fyrir tilviljun að ég fann heimsókn til hans í sveitina á kanadísku House and Home síðunni og finnst að sjálfsögðu upplagt að tengja hana hingað inn til að þið getið séð myndirnar og lesið um hann. Ýtið hér til að sjá alla heimsóknina til Frank. 

06 October 2016

AÐ NÁ STOFUNNI NIÐUR!

INNI I STOFUR
Þarna er ég að tala um að ná fram afsöppuðu yfirbragði og hafa umhverfið ekki stíft. Það er staðreynd að stofur eiga þetta til, sama hver stíllinn er. Í raun snýst þessi grein um það hvað má læra af stofum þar sem boho/bóhem-stíll er ráðandi. Hvað skyldi það nú vera? Jú, óformlegheit, afslappað rými, vinalegt rými. Það má taka þessi atriði og heimfæra þau á allar stofur og öll stílbrigði. Það þarf að gefa stofum gaum til að gera þær spennandi. Hugsa út fyrir boxið í uppröðun á húsgögnum og aukahlutum. Myndirnar sem fylgja með greininni eru allar til að styðja það sem ég er að tala um. Við hverja og eina tek ég saman hvað má læra af myndinni. Lesa nánar til að sjá og lesa. Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...