07 March 2017

SMÁTT EN SMÁATRIÐIN TALA

INNI I HEIMSÓKN
Íbúðin sem við skoðum núna er í smærri kantinum en stútfull af áhugaverðum smáatriðum sem bera hana uppi. Kannski ekki beint smáatriðum, heldur eru í henni fídusar og þættir sem gera ekki stóra íbúð að virkilega góðu rými að búa í. Það eru færri en fleiri sem búa smátt og ekki margir sem búa við það lúxuxvandamál að vita ekki hvað þeir eigi að gera við allt plássið! Þess vegna eru alltaf not fyrir góðar hugmyndir að skoða og meta. Stór þáttur í innanhússhönnun eru svartir stálrammar með gleri sem eru á tveimur stöðum og skipta rýminu en halda því jafnframt mjög opnu. Þá er stofan og liturinn á henni dæmi um að í litlu rými má sannarlega nota dökka og sterka liti án þess að rýmið minnki, eins og margir sérfræðingar segja. Það er gömul og úrelt regla og slíkar reglur eru til að brjóta. Eldhúsið er skemmtilegt og húsgögnin þar. Skápurinn í svefnherberginu kemur vel út og notkunin á ganginum er góð. SMELLIÐ HÉR til að sjá allar myndirnar. 02 March 2017

BÓHEM ALLA LEIÐ

INNI I STÍLL
Sem sannur fylgjandi þess sem kallast blandaður stíll, hlýtur það að vera nokkuð augljóst að mér finnst mörg stílbrigði heillandi og skemmtileg. Þó ekki nema þegar hlutirnir eru teknir alla leið og sýna sanna mynd. Þegar maður heillast af samblandi eins og ég, þá pikkar maður út héðan og þaðan það sem maður fellur fyrir og leysir þá þraut að setja pússluspilið saman. Bóhemískt yfirbragð er eitthvað sem mér finnst ótrúlega gaman að skoða og þá sérstaklega fyrir þær sakir hve stíllinn er afslappaður. Myndin hér að ofan er af heimili sem virkilega tekur þetta alla leið og er ótrúlega skemmtilegt. Þar eru svo margir fallegir hlutir, ótrúlegar plöntur, öðruvísi raðað upp og yfirbragðið heillandi í alla staði. Ég skora á ykkur að skoða allar myndirnar með því að ÝTA HÉR. 01 March 2017

MOTTUR Í LÖGUM – STERK ÁHRIF

INNI I MOTTUR
Já, sterk áhrif þess að nota mottur í lögum! Ef þið skoðið myndirnar sem fylgja greininni, skiljið þið vel hvað ég á við. Ímyndið ykkur þessi sömu rými án þess að þar væru mottur yfir höfuð. Ekki nærri því jafnspennandi umhverfi. Ímyndið ykkur að það væri bara ein motta en ekki margar. Heldur ekki eins spennandi. Mottur í lögum eru spennandi. Hvers vegna: yfirbragðið heillar, það er öðruvísi, auðvelt að blanda að vild, minni mottur eru á mun betra verði en stórar mottur, það má breyta og færa til án þess að það sé vesen, það er miklu betra að þrífa og viðra minni mottur. Og ekki má gleyma því að það gefur persónulegan blæ og stemmningu því þarna er verið að setja eitthvað saman á einstakan hátt. Lesið nánar til að sjá myndirnar sem fylgja. 28 February 2017

ALLT HVÍTT OG VIRKAR FULLKOMLEGA

INNI I HEIMSÓKN
Allt hvítt og virkar fullkomlega. Þrátt fyrir að ég sé algjörlega og eilíflega fyrir að nota liti heima, þá kemur upp spurningin: er hvítt kannski litur? Það fer líklega eftir því við hvern maður talar og hvað maður les, hver niðurstaðan er, en hvítur er hluti af litapalettum og kerfum og spilar meginrullu. Hvít heimili sem farið er með alla leið, finnst mér geta verið virkilega spennandi og heillandi. En eins og alltaf, þá þarf að skína í gegn einstakur og persónulegur stíll og sterk tilfinning fyrir umhverfinu. Hvíta heimilið sem við sjáum mynd af hér er í Mílanó og fer alla leið í hvítri umgjörð. Það sem er spennandi við það er: allt er hvítt til að ýkja áhrifin, skelin er öll hvít fyrir utan dökkt eldhúsgólf, mikið af húsgögnum er í hvítu og ljósu, textíll spilar mikilvægt hlutverk sem einmitt skiptir hvað mestu máli ef á að gera allt hvítt, náttúruleg hráefni njóta sín og eru einföld og mottur eru notaðar til að mýkja. Húsgögnin eru smart og takið eftir hvað litla borðið í eldhúsinu breytir miklu í einföldu umhverfi. ÝTIÐ HÉR til að lesa greinina og sjá allar myndirnar. 
23 February 2017

HVERNIG TEKKIÐ FÆR NOTIÐ SÍN

INNI I UPPSTILLINGAR
Tekkhúsgögn eru eitthvað sem mjög margir eiga. Þau gengu í endurnýjun lífdaga fyrir allmörgum árum eftir að hafa verið nokkurs konar tabú ansi lengi. Mjög margir hafa tilfinningaleg tengsl við slík húsgögn, fengu þau í gjöf, arf og þykir vænt um þau, en eiga í vandræðum með að koma þeim fyrir. Þykir tekkið ganga erfiðlega með öðru. Tekkhúsgögn eru samt dæmi um hluti sem geta komið rosalega fallega út í blandaðri umgjörð og þá sérstaklega ef hlúð er að þeim og þeim leyft að njóta vafans. Staðreyndin er þó sú, að tekk með sínum appelsínugula blæ, gengur misvel með öðrum viðartegundum og sennilega er hvað erfiðast að vinna með tekkhluti á hefðbundnu eikargólfi og láta tekk vinna vel með eik. Til þess að láta slíkt ganga vel upp, er sniðugt að hafa mottu undir eða við tekkhúsgögn, hafa vegginn sem hluturinn stendur við í öðrum lit en hvítum, leyfa hlutnum að standa svolítið einum og sér og það sem má ekki gleyma; skreyta fallega. Nota lampa sem eru áberandi, plöntur, stórar myndir og áhugaverða hluti og bækur. Tekk spilar betur við ljósari eða dekkri viðartegundir og eins við grófara hráefni eins og flot og steypu. Myndirnar sem hér fylgja styðja þetta sem ég er að tala um. Skoðið þær vel og fáið innblástur með því að lesa nánar. 


21 February 2017

BLÁTT TIL AÐ GERA GAMALT AÐ NÝJU

INNI I HEIMSÓKN

Þriðjudagsheimsóknin er í ensku sveitirnar. Gömul bygging sem þurfti hjálp eiganda síns til að komast inn í nútímann en halda sérkennum sínum. Það sem heillar mig er notkunin á bláum litum, hversu vel þeir tóna saman og ólík áferð á hráefni spilar með. Einnig finnst mér einfaldar fulningarnar á veggjunum í stofunni sem og í baðherberginu sérlega skemmtilegar. Heimsóknin er í gegnum síðuna Remodelista. ÝTIÐ HÉR til að lesa greinina og sjá allar myndirnar. 14 February 2017

HEIMSÓKN OG ELDHÚSIÐ GERIR ÚTSLAGIÐ

INNI I HEIMSÓKN
Heimsókn þessa þriðjudags ræðst eingöngu af eldhúsinu. Fallegt heimili en eldhúsið gerir útslagið. Opið rými þar sem eldhúsið er staðsett í öðrum endanum en virkilega haganlega fyrir komið og yfirbragð þess í fullkomnu samræmi við yfirbragð heimilisins. Það hvernig eldhúsið er stúkað af með hálfum gluggavegg er virkilega flott og öðruvísi og hugmynd til að hafa í huga. Svo er innréttingin líka skemmtilega einföld og liturinn á henni gerir allt. Þetta opna rými hefði ekki á sér þetta sérstæða yfirbragð ef ekki væri þetta fallega eldhús. ÝTIÐ HÉR til að skoða allt heimilið. 10 February 2017

SJÖAN Í ÖÐRU SAMHENGI

INNI I HÖNNUN
Íslendingar eru fyrir skandinavíska hönnun. Punktur. Það er eitthvað við hana sem fellur að því sem þeim þykir fallegt. Ekki að undra. Margt er einstakt í hönnunarsögunni. Tökum sem dæmi stóla sem margir eiga. Sjöuna og Maurinn eftir Arne Jacobsen, sem danska fyrirtækið Fritz Hansen framleiðir. Hugmyndin að þeim er líklegast sú að nota stólana í kringum matarborð og flestir kaupa sér þá með það í huga. En þarna skulum við hugsa út fyrir boxið. Bæði Sjöan og Maurinn eru hlutir sem mega hafa allt annan tilgang. Vera allt annars staðar. Í raun sjáum við fegurð þeirra mun betur við aðrar aðstæður en þegar þeir eru hafðir við borðstofuborð. Það má dreifa svona stólum um íbúðina, og koma þeim á óhefðbundnari staði. 
Fritz Hansen er fyrirtæki sem vinnur með allar svona hugmyndir og nota hlutina sína endalaust til að sýna möguleikana. Hvað væri nú fínt ef maður ætti þetta og hitt og hvað þetta og hitt sem þú átt getur komið á óvart ef þú gerir annað með það. Instagram-ið þeirra er svakalega skemmtilegt og þess virði að fylgja. Þegar farið er í gegnum myndir frá Fritz Hansen sést hversu hugmyndirnar eru óendanlega margar með notkun á Sjöunni og Maurnum, og fyrir þá sem þykir gaman að breyta og lítið á heimilið sitt sem verkefni í endalausri þróun, þá eru hérna myndir sem ættu að veita góðan innblástur. Lesa nánar til að sjá myndirnar. 


07 February 2017

KLASSÍSKT, NÚTÍMALEGT OG BLANDAÐ

INTERIORS I HOME VISIT
Nútímalegar byggingar bera yfirleitt nútímalegt yfirbragð hönnunar að innan. Einhvern veginn verður úr samasem merki í þeim efnum milli arkitekta, hönnuða og íbúa. Yfirleitt er of lítið hugsað út fyrir stílinn og farnar leiðir sem er flóknara að vinna með – að gera ráð fyrir blönduðum stíl og tvinna saman stílbrigðum á úthugsaðan hátt. Það er fín lína að vinna með en skilar sér í svo miklu áhugaverðara umhverfi. Heimilið sem þið ætlið að skoða ber þessi sterku merki; að stílbrigðum er tvinnað saman á næman hátt svo úr verður virkilega áhugaverð blanda. Klassísk aristókratabygging er innréttuð með stílhreinum og einföldum innréttingum. Húsgögn og aukahlutir endurspegla svo enn frekar blandaðan stíl eigenda með grófum hlutum og klassískri hönnun í bland við nýlegri. Virkilega fallegt heimili. SMELLIÐ hér til að skoða allt innlitið og fá nánari upplýsingar. 06 February 2017

MÁNUDAGSMIX

INNI I STEMMNING
Það er frekar þungur mánudagur í gangi. Svo ótrúlega grár með leiðinlegu veðri. Alls ekki fallegt um að litast þegar horft er út um gluggann. Skoðum þess vegna fallegar myndir. Myndir sem draga mann til sín. Segja sögu sem við getum ekki fengið að vita meira um, en myndum alveg vilja heyra. Allt sem við höfum er ein mynd og við þurfum að nota ímyndurnaraflið í meira. Lesa nánar. 


Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...