23 February 2017

HVERNIG TEKKIÐ FÆR NOTIÐ SÍN

INNI I UPPSTILLINGAR
Tekkhúsgögn eru eitthvað sem mjög margir eiga. Þau gengu í endurnýjun lífdaga fyrir allmörgum árum eftir að hafa verið nokkurs konar tabú ansi lengi. Mjög margir hafa tilfinningaleg tengsl við slík húsgögn, fengu þau í gjöf, arf og þykir vænt um þau, en eiga í vandræðum með að koma þeim fyrir. Þykir tekkið ganga erfiðlega með öðru. Tekkhúsgögn eru samt dæmi um hluti sem geta komið rosalega fallega út í blandaðri umgjörð og þá sérstaklega ef hlúð er að þeim og þeim leyft að njóta vafans. Staðreyndin er þó sú, að tekk með sínum appelsínugula blæ, gengur misvel með öðrum viðartegundum og sennilega er hvað erfiðast að vinna með tekkhluti á hefðbundnu eikargólfi og láta tekk vinna vel með eik. Til þess að láta slíkt ganga vel upp, er sniðugt að hafa mottu undir eða við tekkhúsgögn, hafa vegginn sem hluturinn stendur við í öðrum lit en hvítum, leyfa hlutnum að standa svolítið einum og sér og það sem má ekki gleyma; skreyta fallega. Nota lampa sem eru áberandi, plöntur, stórar myndir og áhugaverða hluti og bækur. Tekk spilar betur við ljósari eða dekkri viðartegundir og eins við grófara hráefni eins og flot og steypu. Myndirnar sem hér fylgja styðja þetta sem ég er að tala um. Skoðið þær vel og fáið innblástur með því að lesa nánar. 


21 February 2017

BLÁTT TIL AÐ GERA GAMALT AÐ NÝJU

INNI I HEIMSÓKN

Þriðjudagsheimsóknin er í ensku sveitirnar. Gömul bygging sem þurfti hjálp eiganda síns til að komast inn í nútímann en halda sérkennum sínum. Það sem heillar mig er notkunin á bláum litum, hversu vel þeir tóna saman og ólík áferð á hráefni spilar með. Einnig finnst mér einfaldar fulningarnar á veggjunum í stofunni sem og í baðherberginu sérlega skemmtilegar. Heimsóknin er í gegnum síðuna Remodelista. ÝTIÐ HÉR til að lesa greinina og sjá allar myndirnar. 14 February 2017

HEIMSÓKN OG ELDHÚSIÐ GERIR ÚTSLAGIÐ

INNI I HEIMSÓKN
Heimsókn þessa þriðjudags ræðst eingöngu af eldhúsinu. Fallegt heimili en eldhúsið gerir útslagið. Opið rými þar sem eldhúsið er staðsett í öðrum endanum en virkilega haganlega fyrir komið og yfirbragð þess í fullkomnu samræmi við yfirbragð heimilisins. Það hvernig eldhúsið er stúkað af með hálfum gluggavegg er virkilega flott og öðruvísi og hugmynd til að hafa í huga. Svo er innréttingin líka skemmtilega einföld og liturinn á henni gerir allt. Þetta opna rými hefði ekki á sér þetta sérstæða yfirbragð ef ekki væri þetta fallega eldhús. ÝTIÐ HÉR til að skoða allt heimilið. 10 February 2017

SJÖAN Í ÖÐRU SAMHENGI

INNI I HÖNNUN
Íslendingar eru fyrir skandinavíska hönnun. Punktur. Það er eitthvað við hana sem fellur að því sem þeim þykir fallegt. Ekki að undra. Margt er einstakt í hönnunarsögunni. Tökum sem dæmi stóla sem margir eiga. Sjöuna og Maurinn eftir Arne Jacobsen, sem danska fyrirtækið Fritz Hansen framleiðir. Hugmyndin að þeim er líklegast sú að nota stólana í kringum matarborð og flestir kaupa sér þá með það í huga. En þarna skulum við hugsa út fyrir boxið. Bæði Sjöan og Maurinn eru hlutir sem mega hafa allt annan tilgang. Vera allt annars staðar. Í raun sjáum við fegurð þeirra mun betur við aðrar aðstæður en þegar þeir eru hafðir við borðstofuborð. Það má dreifa svona stólum um íbúðina, og koma þeim á óhefðbundnari staði. 
Fritz Hansen er fyrirtæki sem vinnur með allar svona hugmyndir og nota hlutina sína endalaust til að sýna möguleikana. Hvað væri nú fínt ef maður ætti þetta og hitt og hvað þetta og hitt sem þú átt getur komið á óvart ef þú gerir annað með það. Instagram-ið þeirra er svakalega skemmtilegt og þess virði að fylgja. Þegar farið er í gegnum myndir frá Fritz Hansen sést hversu hugmyndirnar eru óendanlega margar með notkun á Sjöunni og Maurnum, og fyrir þá sem þykir gaman að breyta og lítið á heimilið sitt sem verkefni í endalausri þróun, þá eru hérna myndir sem ættu að veita góðan innblástur. Lesa nánar til að sjá myndirnar. 


07 February 2017

KLASSÍSKT, NÚTÍMALEGT OG BLANDAÐ

INTERIORS I HOME VISIT
Nútímalegar byggingar bera yfirleitt nútímalegt yfirbragð hönnunar að innan. Einhvern veginn verður úr samasem merki í þeim efnum milli arkitekta, hönnuða og íbúa. Yfirleitt er of lítið hugsað út fyrir stílinn og farnar leiðir sem er flóknara að vinna með – að gera ráð fyrir blönduðum stíl og tvinna saman stílbrigðum á úthugsaðan hátt. Það er fín lína að vinna með en skilar sér í svo miklu áhugaverðara umhverfi. Heimilið sem þið ætlið að skoða ber þessi sterku merki; að stílbrigðum er tvinnað saman á næman hátt svo úr verður virkilega áhugaverð blanda. Klassísk aristókratabygging er innréttuð með stílhreinum og einföldum innréttingum. Húsgögn og aukahlutir endurspegla svo enn frekar blandaðan stíl eigenda með grófum hlutum og klassískri hönnun í bland við nýlegri. Virkilega fallegt heimili. SMELLIÐ hér til að skoða allt innlitið og fá nánari upplýsingar. 06 February 2017

MÁNUDAGSMIX

INNI I STEMMNING
Það er frekar þungur mánudagur í gangi. Svo ótrúlega grár með leiðinlegu veðri. Alls ekki fallegt um að litast þegar horft er út um gluggann. Skoðum þess vegna fallegar myndir. Myndir sem draga mann til sín. Segja sögu sem við getum ekki fengið að vita meira um, en myndum alveg vilja heyra. Allt sem við höfum er ein mynd og við þurfum að nota ímyndurnaraflið í meira. Lesa nánar. 


02 February 2017

GLEYMIÐ EKKI SMÁFUGLUNUM

INNI I BÖRN
Ég er á þeirri skoðun að það sé mjög mikilvægt fyrir börn að hafa herebrgin sín vel skipulögð og einföld, sama hver stærðin er á þeim. Svo ekki sé minnst á snyrtileg. Ég hef nefnilega tekið eftir í gegnum tíðina, að ef svo er ekki, þá missa þau áhugann á að leika sér og vera þar inni. Þeim líður ekki nógu vel. Þá er ég ekki að tala um að ganga frá öllu „spikk and span" hvert einasta kvöld. Við erum vön því hér heima hjá okkur að leikið er á ýmsum stöðvum sem hafa hlutverk og leikurinn getur haldið áfram svo dögum skiptir. Maður eyðileggur það ekki. Það sem er hins vegar mikilvægt er að blessuð börnin viti að það þarf og á að ganga frá og að þau geri það sjálf (þekki það af eigin raun að það tekst ekki alltaf). Ef það á að takast þá þurfa börnin að vita hvert dótið á að fara, hvaða stað það á. Sem o,g að það er að taka til fyrir sig en ekki bara mig! 
Barnaherbergi eru flókin herbergi í huga margra og í minni vinnu er ég iðulega spurð um þetta herbergi því það er til vandræða. Yfirleitt eru barnaherbergi of lítil til að koma öllu fyrir sem þar þarf að rúmast og það er troðið út af dóti. Þá er spurt um lausnir, uppröðun og hvernig má hreinlega gera það fallegra. 
Talandi um þetta, þá bað Kaja mig um að gera póst um barnaherbergi. Hún elskar að fara inn á Pinterest og skoða falleg herbergi. Við völdum því þessar myndir saman og ef þið ýtið á lesa nánar hnappinn sjáið þið allar myndirnar sem og skýringar hvers vegna herbergið á myndinni virkar. Þarna gætu verið gagnlegar upplýsingar! 


01 February 2017

HVERS VEGNA EKKI?

INNI I HÖNNUN
Hvers vegna ekki...að velta því fyrir sér að nota furu inn í nýjar og einfaldar byggingar en annan við sem yfirleitt sést? Að nota furu í innréttingar og í hurðir getur komið ofsalega fallega og skemmtilega út. Möguleikarnir eru líka miklir með furunni og meðhöndlun hennar; ómeðhöndluð, hvíttuð, bæsuð, máluð. Myndin hér að ofan sýnir þetta mjög vel. Yfir henni er allt annar stíll en við sjáum yfirleitt í byggingum sem þessari. Yfirbragðið verður meira afslappað og frjálst. Furan er nefnilega alls ekki bara í bústaðinn! 
31 January 2017

LOFTÍBÚÐ Í MÍLANÓ 2016

INNI I HEIMSÓKNSpennandi heimili frá 2016. Auðvitað eru mörg falleg og áhugaverð heimili sem gætu fallið í þennan flokk en byrjum á þessu og eigum þá frekar önnur inni. Ég ætla líka að hafa þetta upphafið að þriðjudagsheimsóknum sem ég var með á síðunni fyrir ansi löngu síðan. Þetta Mílanó-loft er síðasta yfirlitsgreinin yfir síðasta ár en jafnframt fyrsta heimilið sem við heimsækjum þetta árið. Ég veit nefnilega að heimsóknir og innlit er þáttur sem vekur áhuga lesenda, forvitni, vonandi jákvæða, því í mínum huga er jákvæð forvitni einlæg og ber vott um skapandi hugsun. Þetta einstaka loft birtist á Remodelista-síðunni og ég sendi ykkur þangað með því að þið klikkið HÉR. Með þessu sjáið þið allar myndir, getið lesið upprunalegan texta og jafnframt er ekki verið að taka frá þeim sem birti fyrstur greinina. En hvað er það annars sem ég hrífst af á þessu heimili? Tjöldin sem hanga úr loftinu og skipta rýminu niður í minni einingar til að brjóta upp annars stórt og opið rými. Takið eftir hvað þau færa inn mikilvægan þátt í notkun á textíl sem er stærsti þátturinn í því að ná fram meiri mýkt og hlýju. Einnig er yfir þessu lofti x-þátturinn sem verður sjálfkrafa til þegar ótrúlega margir þættir smella saman í að skapa eitthvað áhugavert. ÝTIÐ HÉR til að lesa alla greinina og sjá fallegar myndir. 30 January 2017

BAÐHERBERGI 2016

INNI I BAÐHERBERGI
Síðustu dagar janúarmánaðar eru að líða og sömuleiðis sá tími sem ég ætlaði til að gera upp síðasta ár þegar kemur að innanhússhönnun, góðum hugmyndum og eftirtektarverðum hlutum. Nú er komið að baðherbergjum. Eina herbergið sem ég tek sérstaklega fyrir, en það er vegna þess að ég tók eftir að á Pinterest að baðherbergjamappan hefur flesta fylgjendur. Fólk er greinilega áhugasamt um baðherbergi og ég held að það tengist því að flestir hefðu ekkert á móti því að eiga virkilega flott og gott baðherbergi. Þar sem má slaka á, endurnærast, þrífa sig og vera í friði. Hönnun og skipulag á baðherberginu er hins vegar eitthvað sem margir hræðast og að gera upp baðherbergi er töluverður kostnaður. Oft held ég samt að fólk ætli sér of mikið með þetta herbergi. Það á að vera svo fullt af hirslum og geymsluplássi fyrir fyrirferðamikla hluti að plássið verður að engu. Í stað þess að hafa herbergið einfalt og sem mest gert úr því ritúali að baða sig. Einfaldara baðherbergi skilar sér í eftirtektarverðara baðherbergi, meiri stíl þegar kemur að útliti og yfirbragð, áferð, hráefni, tækjum. Myndirnar sem fylgja sýna þetta glögglega. Lesa nánar. 


Pin It button on image hover
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...